Franskur dómsstóll hefur sýknað flugfélagið Air France og flugvélaframleiðandann Airbus af ákæru um manndráp af gáleysi vegna flugvélar sem hrapaði í Atlantshafið árið 2009. 228 létust, þar á meðal einn Íslendingur.
Fram kemur í umfjöllun Guardian að í dóminum segi að ef mistök hafi verið gerð þá sé „ekki hægt að tengja þau með vissu“ við flugslysið.
Flugvélin, sem var af gerðinni Airbus A330-203, var á leið frá Rio de Janeiro til Parísar er hún hrapaði í þrumuveðri.
Fimm dögum eftir hrapið fannst loks brak úr henni og einnig fundust tvö lík. Það var þó ekki fyrr en í maí tveimur árum síðar að flugritinn fannst.
Lögmenn fjölskyldna hinna látnu hafa barist fyrir því í mörg ár að sækja flugfélagið og flugvélaframleiðandann til saka og segja slysið vera versta flugslys í sögu Frakklands.
Réttarhöld stóðu yfir í tvo mánuði í fyrra þar sem saksóknari sagði að lokum að ekki væri hægt að sanna að fyrirtækin bæru ábyrgð.
Í skýrslu franskrar rannsóknarnefndar kom fram að hraðamælar vélarinnar, sem kallaðir eru Pitots, hafi bilað í flugferðinni aðfaranótt 1. júní 2009.
Þá sagði að flugmennirnir hafi ekki brugðist rétt við þegar Airbus-þotan tók að missa flughæð eftir að mælarnir biluðu. Þá skorti þjálfun til að bregðast við biluninni.