Tollgæsla og lögregla í Vestland í Noregi lögðu hald á rúmlega hundrað kílógrömm af kókaíni sem fest hafði verið utan á skipsskrokk neðan vatnsborðs á flutningaskipi á leið inn til Husnes í Kvinnherad þar í fylkinu á fimmtudaginn.
Er þar kominn stærsti kókaínfundur tollgæslu í Vestur-Noregi en skammt hefur verið stórra högga á milli í kókaínmálum í landinu síðustu vikur, tæplega 1,6 tonn af efninu fundust í tveimur málum sem bæði komu upp á lager bananainnflytjandans Bama í Ósló svo sem greint hefur verið frá hér á vefnum.
Tollverðir töldu sig hafa áreiðanlegar vísbendingar um að von væri á smyglvarningi og komu fleiri tollumdæmi að rannsókn málsins ásamt embættinu í Vestland. Í samvinnu við lögreglu og landhelgisgæslu bárust böndin að þessu tiltekna skipi og stöðvaði lögregla för bifreiðar sem var á leið frá því aðfaranótt fimmtudags.
Í bifreiðinni fannst svo kókaínið að sögn Bård Ynnesdal, svæðisstjóra tollgæslunnar, og eru þessar upplýsingar hafðar eftir honum í fréttatilkynningu.
Við rannsókn á skipinu beitti tollgæsla fjarstýrðum leitarkafbáti auk þess sem kafarar frá landhelgisgæslu köfuðu undir það. Fundust ummerki um að þar hefðu efnin verið fest utan á skipið sem heitir Nordloire og var á leið frá Vila do Conde í Brasilíu. Kveður tollgæsla þar um kunna smyglaðferð að ræða.
Segir Ynnesdal í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að í tilfellum sem þessu sé það alveg undir hælinn lagt hvort áhöfn skipsins viti nokkuð af þeim dulda farangri sem hún flytur. Í þessu tilfelli liggi til dæmis enginn úr áhöfn undir grun en hins vegar voru sex manns handteknir í vopnaðri lögregluaðgerð í Husnes nóttina sem hald var lagt á kókaínið, allt albanskir ríkisborgarar.
Hafa þeir verið úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna málsins en tengsl þeirra við skipið eru að sögn tollgæslu engin.