Fréttamenn sjónvarpsstöðvarinnar Fox News þurfa ekki að játa í beinni útsendingu að hafa farið með lygar um fyrirtækið Dominion-kosningavélar, Dominion Voting Systems. Sú lending er hluti af samkomulagi sjónvarpsstöðvarinnar og fyrirtækisins sem náðist fyrir dómi í dag.
Hefur Fox-stöðin hins vegar sent frá sér yfirlýsingu um að fréttaþulir hennar hafi farið með rangt mál þegar þeir sökuðu Dominion um kosningasvindl í þágu Joes Bidens, nú Bandaríkjaforseta, í kosningabaráttunni. Fóru lögmenn kosningavélaframleiðandans upphaflega fram á háar fébætur en drógu síðar í land í kröfugerð sinni.
„Fox hefur viðurkennt að hafa farið með lygar í garð Dominion,“ sagði John Poulos, stjórnarformaður fyrirtækisins, í samtali við CNN-sjónvarpsstöðina í dag eftir að málsaðilar höfðu sæst á 787,5 milljóna dala bótagreiðslu Fox – í stað 1,6 milljarða sem upphafleg kröfugerð hljóðaði upp á. Skrifar New York Times að samkomulagið hafi afstýrt því sem orðið hefðu söguleg réttarhöld.
Greindi stjórnarformaðurinn einmitt frá því að „sögulegt“ samkomulag Fox og Dominion gengi auk greiðslunnar út á að sjónvarpsstöðin lýsti því yfir að hún hefði farið með rangfærslur um Dominion sem skaðað hefðu fyrirtækið, starfsfólk þess og viðskiptavini verulega.
Justin Nelson, lögmaður Dominion, sagði á blaðamannafundi eftir að sættirnar lágu fyrir að niðurstaðan væri skýr stuðningur við sannleikann og áreiðanleikann. „Sannleikurinn skiptir máli. Lygar draga dilk á eftir sér,“ sagði lögmaðurinn.
Enn fremur kvað hann „holskeflu lyga“ hafa gengið yfir kosningavélaframleiðandann og starfsfólk við framkvæmd kosninga um Bandaríkin þver og endilöng sem kallað hefði „þungan harm yfir Dominion og landið allt“.