Úkraínsk stjórnvöld segja að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi heimsótt vettvang rússneskra glæpa eftir að stjórnvöld í Rússlandi sögðu hann hafa ferðast til úkraínsku héraðanna Kerson og Lúhansk.
„Það er merkilegt að fylgjast með hnignun Pútíns,” tísti Mikhaílo Pódoljak, ráðgjafi Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta.
Hann bætti við að Pútín hefði ferðast um hernumin úkraínsk svæði „til að njóta glæpa þjóna sinna í síðasta sinn”.
Þetta var í fyrsta sinn sem Pútín heimsótti þessi tvö héruð, sem hafa að hluta til verið undir stjórn rússneskra hersveita eftir að Rússar innlimuðu þau ásamt tveimur öðrum úkraínskum héruðum í september síðastliðnum.