Í gær hófst Aurora 23, stærsta heræfing á sænskri grundu í 30 ár, og æfa 26.000 hermenn þar viðbrögð við innrás erlends ríkis. Stendur æfingin fram til 11. maí en þátttakendur í henni koma frá 13 löndum auk þess sem allar deildir sænska hersins, landher, sjóher, flugher og heimavarnarlið, taka þar þátt.
Hefur skipulag æfingarinnar staðið frá árinu 2015 en að sögn Stefans Anderssons ofursta hafa tvær mikilvægar breytingar átt sér stað síðan þá. „Annað er stríð í Úkraínu sem Rússar hófu og er óþægilega nærri okkur, hitt er að við erum nú á leið inn í Atlantshafsbandalagið. Fyrir vikið verður vægi æfingarinnar enn meira,“ segir ofurstinn við sænska ríkisútvarpið SVT.
Segir Andersson það þungavigtaratriði á æfingunni að sjá hvernig til takist við að þiggja aðstoð erlendra herja þegar stríð brýst út auk þess sem sænski herinn fái nú að reyna sig þegar kemur að samstarfi við Atlantshafsbandalagsríki.
„Þetta er ákaflega mikilvæg æfing í því samhengi að við erum á leið í NATO. Hún verður okkur ákaflega lærdómsrík,“ segir hann.
Á Skáni, í Smálöndunum og á Gautlandi fer æfingin fram á sérstökum æfingasvæðum en einnig á borgaralegu svæði. Í Norrbotten munu sænska og norska heimavarnarliðið æfa saman. Þá munu 700 bandarískir hermenn fara um Jämtland og Härjedalen auk þess sem Svíar munu verða töluvert varir við orrustuþotur og herför á hafi úti næstu vikurnar.