Tveir drengir á unglingsaldri hafa verið ákærðir fyrir fjögur manndráp af gáleysi, vegna skotárásar í 16 ára afmælisveislu í Alabamaríki í Bandaríkjunum þar sem fjórir létust og 32 særðust. Bræðurnir Ty Reik McCullough og Travis McCullough, sem eru 17 og 16 ára, voru handteknir á þriðjudagskvöld.
Hinn tvítugi Wilson LaMar Hill hefur einnig verið handtekinn en hefur enn ekki verið ákærður. Talið er að hann verði ákærður fyrir sömu glæpi og bræðurnir tveir en búist er við því að þeir verði ákærðir fyrir fleiri glæpi vegna kvöldsins.
Enn eru fjórir á spítala vegna árásarinnar í lífshættulegu ástandi að sögn Jeremy Burkett liðforingja hjá lögreglunni í Alabama. Lögreglan hefur enn ekki upplýst um hvað árásarmönnunum gekk til, en að sögn Burkett er það til rannsóknar.
Frænka fjölskyldunnar, LaShonda Allen, segir fjölskylduna ekki þekkja nöfn árásarmannanna og að þeir hafi ekki verið boðnir í veisluna.
Þau látnu voru Marsiah Collins, 19 ára; Phil Dowdell, 18 ára; Corbin Holston, 23 ára; og Shaunkivia Smith, 17.
Phil Dowdell lést þegar hann reyndi að bjarga afmælisbarninu, systur sinni Alexis, í dansstúdíó í borginni Dadeville þar sem veislan var haldin. Móðir þeirra var einnig skotin tvisvar en lifði árásina af.
Phil var skotin tvisvar í hálsinn og lést hann áður en sjúkraliðar náðu á vettvang. Phil hefði átt að útskrifast úr menntaskóla í maí og hafði hlotið fótboltaskólastyrk í Jacksonville State háskóla.