Bretar óttast tölvuþrjóta

Bretar óttast netárásir á innviði.
Bretar óttast netárásir á innviði. AFP

Rússneskir tölvuþrjótar eru taldir leggja á ráðin um „truflun eða skemmdarverk“ á mikilvægum breskum innviðum. Við þessu varaði Oliver Dowden, þingmaður Íhaldsflokksins, í ræðu sem hann flutti í dag um stöðu netglæpamála í Bretlandi.

Lindy Cameron, stjórnarformaður bresku netöryggismiðstöðvarinnar NCSC, tekur undir með Dowden en hún ávarpaði ráðstefnuna CyberUK í Belfast í dag þar sem netöryggismál voru til umræðu.

Efst á innkaupalistanum

Sagði Cameron að Bretland yrði að geta „staðist allar ógnir, hvort sem þær koma frá ríkjum eða netglæpamönnum“. Þetta yrði að vera í ýtrasta forgangi ætti Bretland að vera land þar sem öruggt teldist að lifa og starfa á lýðnetinu, það yrði að vera „efst á innkaupalistanum“.

Hafa embættismenn hreyft því að stofnanir, svo sem þær sem hafa með orku- og vatnsmál að gera, aðhafist nú þegar í þeirri viðleitni að verja sig fyrir yfirvofandi netöryggisógn. Að sögn NCSC er um að ræða hópa tölvuþrjóta sem gjarnan styðji aðgerðir Rússa í Úkraínu.

Bendir netöryggisstofnunin sérstaklega á að aðgerðir netglæpahópa þessara séu óútreiknanlegar þar sem þær lúti í engu stjórn einhvers konar ríkisvalds.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert