Maðurinn sem skaut til bana konu í bíl sem var fyrir mistök ekið upp að húsi hans hefur ekki sýnt neina iðrun vegna málsins.
Þetta sagði Jeffrey Murphy, lögreglustjóri í Washington-sýslu, í samtali við CNN um Kevin Monahan.
Nokkrir bílar óku um götuna við hús Monahans að leita að ákveðnu heimilisfangi, þar á meðal bíllinn þar sem Kaylin Gillis var farþegi. Sá bíll var að yfirgefa innkeyrsluna að húsi hans þegar hann skaut tveimur skotum á hann.
„Ég skil ekki hvernig þau gátu hrætt einhvern með þessari hegðun, en þau voru greinilega að yfirgefa svæðið þegar skotunum var hleypt af,” sagði Murphy.
„Það stafaði greinilega engin ógn af neinum í bílnum. Það var engin ástæða fyrir Monahan að vera hræddur.”
Murphy bætti við að enginn hefði hringt í neyðarlínuna til að tilkynna um hávaða frá bílunum.
Suspect who shot and killed woman who pulled into wrong driveway has shown no remorse, say police https://t.co/KQWMj3UzBO
— BBC News (World) (@BBCWorld) April 19, 2023
Monahan var hnepptur í varðhald eftir skotárásina og að sögn Murphys vildi Monahan ekkert tjá sig um verknaðinn og bað um lögmann áður en hann var kominn út úr húsi sínu.
„Satt best að segja hefur hann ekki sýnt neina iðrun í þessu máli,” sagði Murphy, sem áréttaði að Monahan hefði ekki veitt mótspyrnu við handtökuna.