Lík á víð og dreif um götur Kartúm

Fjöldi íbúa Kartúm í Súdan flýja nú höfuðborgina, vegna harðra …
Fjöldi íbúa Kartúm í Súdan flýja nú höfuðborgina, vegna harðra bardaga á milli Súdanhers og uppreisnarhersins RSF. AFP

Þúsundir íbúa hafa flúið borgina Kartúm, höfuðborg Súdan. Sjónarvottar segja lík liggja á víð og dreif um götur borgarinnar, eftir harða bardaga milli Súdanhers og uppreisnarhersins RSF eftir að ekki tókst að halda umsamið vopnahlé.

Sameinuðu þjóðirnar áttu frumkvæði að vopnahléinu, en með því átti að gefa óbreyttum borgurum færi á að flýja átakasvæðin og hjálparsamtökum að koma neyðaraðstoð og vistum inn á svæðið.

Átökin, sem hafa staðið yfir í fimm daga í Kartúm og víðar í Súdan, hafa orðið að minnst 185 manns að bana samkvæmt nýjustu upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.

Lyktin af líkum fyllir loft borgarinnar

„Lífið í Kartúm er ómögulegt ef þetta stríð hættir ekki,“ sagði Alawya al-Tayeb sem var á leið í burt frá höfuðborginni. „Ég reyndi að vernda börnin mín frá því að sjá líkin á götunum,“ sagði hún.

Íbúar borgarinnar segja nálykt fylla borgina.  

Diplómatar og starfsmenn utanríkisþjónustu í landinu hafa einnig orðið fyrir árásum. Að sögn Martin Griffiths, umsjónarmanns neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna, hefur stofnunin einnig fengið tilkynningar um árásir og kynferðisofbeldi gegn hjálparstarfsmönnum. Ríkisstjórnir hafast nú við að flytja þegna sína úr landinu eins fljótt og auðið er.

Fólk á leið burt frá Kartúm. Íbúar segja lyktina af …
Fólk á leið burt frá Kartúm. Íbúar segja lyktina af líkum fylla loftið í borginni, en talið er að um 185 manns hafi látist eftir að umsamið vopnahlé var ekki virt. AFP

Segjast báðir hafa yfirráð

Átök­in kviknuðu vegna valda­bar­áttu á milli hers­höfðingj­anna Abdel Fattah al-Bur­h­an, yf­ir­manns her­for­inga­stjórn­ar­inn­ar í Súd­an, og næ­stráðanda hans, Mohamed Hamd­an Daglo, en hann hef­ur stýrt víga­sveit­un­um RSF (Rapid Supp­ort Forces) að undanförnu.

Ósætti kom upp þeirra á milli, vegna fyrirhugaðar sameiningar hersveitanna. Daglo mun ekki hafa fellt sig við áformin, en það var talið lyk­il­atriði í því að færa stjórn­artaum­ana í land­inu aft­ur til borg­ara­legra afla eft­ir vald­arán hers­ins árið 2021.

Burhan og Dagalo hafa áður verið bandamenn, en þeir sameinuð krafta sína til að steypa einvaldinum Omar-al Bshir af stóli árið 2019.

Báðir hershöfðingjarnir segjast hafa yfirhöndina í bardaganum, en ekki hefur verið hægt að staðfesta hvoruga staðhæfinguna. Viljaleysi þeirra beggja til að virða vopnahléið, þrátt fyrir mikinn þrýsting frá alþjóðasamtökum, bendir til þess að báðir hershöfðingjar séu viljugir til að gera nánast hvað sem er til að ná völdum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert