Rússneskir úlfar í sauðargæru

Sovéska talstöðin sem lögreglan í Norður-Noregi fann í læstum klefa …
Sovéska talstöðin sem lögreglan í Norður-Noregi fann í læstum klefa um borð í togaranum Lira. Þetta er gömul en mjög langdræg stöð og má hvort tveggja senda boð með morse-stafrófi og tala gegnum hana. Önnur stöð, nákvæmlega eins, fannst svo um borð í togaranum Ester. Ljósmynd/Norska lögreglan

Fimmtíu rússnesk njósnaskip, dulbúin meðal annars sem togarar og rannsóknarskip, stunda njósnir víða á hafsvæðum og í höfnum Norðurlandanna. Þessi starfsemi er til umfjöllunar í stóru samstarfsverkefni ríkisútvarpa Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar sem þessir fjölmiðlar birta á vefsíðum sínum og í sjónvarpsþáttum í dag.

Umfangsmikil umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK hefst með rússneska togaranum Taurus sem er með heimahöfn í Murmansk í Rússlandi og er í tíðum siglingum milli fiskimiða í Barentshafi og nokkurra hafna í Norður-Noregi. Það merkilega við ferðir togarans er að hann virðist ávallt dúkka upp þegar bandarískir kjarnorkukafbátar koma upp á yfirborðið við strönd Norður-Noregs en þeir fá hafnarþjónustu í Tromsø.

Eldforn sovésk talstöð

Eins hefur sést til manns, sem ekki tilheyrir áhöfninni, fara um borð í Taurus í ónefndri höfn í Norður-Noregi og snúa aftur frá skipinu með svarta tösku. Norsku hafnirnar sem rússnesku togararnir sigla til nú, eftir að viðskiptabann gagnvart Rússlandi tók gildi, eru þó mun færri en áður. Þeir mega nú aðeins koma til hafnar í Kirkenes, Båtsfjord og Tromsø.

Annar togari heitir Lira. Um borð í honum fundu norskir lögreglumenn við eftirlit læstan klefa sem þeir báðu áhöfnina að opna. Þar inni reyndist maður sitja við eldforna sovéska talstöð. Frá þessu greinir norska öryggislögreglan PST sem hefur fylgst náið með ferðum rússneskra skipa við Noreg frá 2013 til dagsins í dag.

Nils Andreas Stensønes hefur haft yfirumsjón með Rússaverkefninu hjá PST. Hann segir auðveldara um vik að njósna á hafi úti en í landi þar sem njósnarar þurfa oftast að fara um fyrir allra augum. Á hafinu séu vitnin færri. Áhafnirnar vinni sín hefðbundnu störf en ofan á þær bætist svo njósnastarfsemin og má þar nefna nýleg dæmi af ferðum rannsóknarskipsins Akademik B. Petrov í haust þar sem það sigldi nærri norskum olíuborpöllum og vakti athygli.

Ítarlegt eftirlit með ferðum skipanna í áratug sýnir enn fremur að heræfingar Atlantshafsbandalagsins laða þau að sér og þau biðja oft um að fá að koma í norskar hafnir í neyð, vegna vélar- eða annarra bilana um borð. Slíkar heimsóknir fara þó oftast saman við ferðir erlendra herskipa um eða við sömu hafnir.

Annað rannsóknarskip, Akademik Lazarev, býr yfir tæknibúnaði til að kortleggja hafsbotninn og það sem á honum er, hvort sem það eru olíu- eða gasrör eða rafmagns- eða ljósleiðarastrengir. „Rússarnir hafa áhuga á norskri tækni. Og hana má rannsaka upp að vissu marki á hafi úti,“ segir Stensønes.

Í skotheldu vesti með riffil á rannsóknarskipi

Danska ríkisútvarpið DR greinir frá rússneska skipinu Admiral Vladimirsky á sundinu Kattegat, milli Jótlands og Svíþjóðar. Þar var fréttamaður DR á ferð á léttabáti 24. nóvember, um 200 metra frá rússneska skipinu, þegar maður íklæddur skotheldu vesti, grímuklæddur og með herriffill birtist á þilfarinu. Admiral Vladimirsky er þó skráð rannsóknarskip, ekki herskip.

DR ræðir við H.I. Sutton, greinanda og sérfræðing í málefnum rússneska flotans. „Í hugsanlegu stríði í framtíðinni eru innviðirnir veikasti punktur flestra landa. Eru sum þar veikari fyrir en önnur, en Evrópulöndunum er það mjög mikilvægt að geta varið innviði sína,“ segir greinandinn og kveður höfuðspurninguna vera þá, hverju umfangsmikið njósnakerfi Rússa fái áorkað komi til stríðsátaka við NATO-ríki.

NRK

DR

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert