Bresk stjórnvöld lýsa yfir áhyggjum af því sem þau kalla „leynilegar kínverskar lögreglustöðvar“ sem kínversk stjórnvöld haldi úti í öðrum ríkjum. Bendir breska dagblaðið The Times á dæmi um þetta sem sé heimsendingarþjónusta með mat í Croydon, úthverfi Lundúna.
Þann stað reki kínverski kaupsýslumaðurinn Lin Ruiyou sem hvort tveggja hafi tengsl inn í breska Íhaldsflokkinn og Kínverska kommúnistaflokkinn. Sé matarþjónusta hans í raun kínversk lögreglustöð sem sigli undir fölsku flaggi og sé ætlað að hafa auga með kínverskum borgurum og athöfnum þeirra í Lundúnum.
„Tilraunir erlendra stjórnvalda til að hafa stjórn á, hræða eða skaða gagnrýnendur sína í öðrum löndum og hunsa með því lýðræðið og réttarreglurnar eru óviðunandi,“ segir viðmælandi AFP-fréttastofunnar innan stjórnkerfisins. „Það er skylda okkar að vera þrándur í götu slíkrar starfsemi hvert sem hún rekur uppruna sinn,“ segir viðmælandinn enn fremur.
Innanríkisráðuneytið breska og lögreglan í Lundúnum hófu rannsókn í kjölfar þess er mannréttindasamtökin Safeguard Defenders greindu frá starfsemi lögreglustöðvanna kínversku í fyrra. Laura Harth, herferðastjóri samtakanna, segir við AFP að lýðræðislegum stjórnvöldum sé bráðnauðsynlegt að fletta ofan af slíkri starfsemi og uppræta hana.
Í New York voru tveir menn handteknir á mánudaginn, grunaðir um að koma upp eftirlitsstarfsemi á borð við þá sem hér er lýst, auk þess sem ákærur hafa verið gefnar út á hendur nokkrum tugum kínverskra öryggiseftirlitsmanna vegna tilrauna þeirra til að njósna um og áreita Kínverja búsetta í Bandaríkjunum.