Vill samstöðu gegn „fjárkúgun“ Vesturlanda

Yvan Gil, utanríkisráðherra Venesúela, (til vinstri) ásamt Sergei Lavrov.
Yvan Gil, utanríkisráðherra Venesúela, (til vinstri) ásamt Sergei Lavrov. AFP/Yuri Cortez

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, vill að þjóðir sem deila sömu hugmyndafræði sameinist gegn „fjárkúgun” Vesturlanda. Átti hann þar við refsiaðgerðir vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Þetta sagði hann á ferðalagi sínu um Suður-Ameríku.

Þegar Lavrov ræddi stríðið í Úkraínu við Yvan Gil, utanríkisráðherra Venesúela, í höfuðborg landsins Caracas, talaði rússneski ráðherrann um Venesúela, Kúbu og Nicaragua sem lönd „sem feta sína eigin slóð”.

Sergei Lavrov (til vinstri) ásamt Nicolas Maduro, forseta Venesúela í …
Sergei Lavrov (til vinstri) ásamt Nicolas Maduro, forseta Venesúela í gær. AFP/Yuri Cortez

Sagði hann að þessi lönd ásamt Rússlandi hefðu lent í skaðlegum efnahagslegum refsiaðgerðum.

„Það er nauðsynlegt að taka höndum saman gegn tilraunum til fjárkúgunar og ólöglegum, einhliða þrýstingi frá Vesturlöndum,” sagði Lavrov á blaðamannafundi með Gil.

Lavrov fundaði einnig með Nicolas Maduro, forseta Venesúela, sem tísti að fundinum loknum um að þetta hefði verið „ánægjulegur fundur sem styrkti samskipti landanna”.

Lavrov er í vikulöngu ferðalagi um Suður-Ameríku sem hófst í Brasilíu. Hann mun einnig heimsækja Nicaragua og Kúbu á ferðalaginu en þar hafa vinstri stjórnvöld átt í fjandsamlegum samskiptum við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert