Klappstýrur skotnar á bílastæði í Texas

Payton Washington.
Payton Washington. Skjáskot/GoFundMe Woodland Elite Generals

Byssumaður skaut vinkonurnar og klappstýrurnar Payton Washington og Heather Roth á bílastæði í Texas rétt eftir miðnætti á staðartíma í gær.

Mikið hefur verið um skotárásir í Bandaríkjunum það sem af er ári en í lok síðasta mánaðar höfðu 128 fjölda­skotárás­ir til að mynda verið gerðar það sem af er ári.

Dró upp byssu og skaut

Roth steig út úr bíl vinkonu sinnar á bílastæði í bænum og settist inn í sinn eigin, að hún hélt, en bílastæðið hafa þær notað til að hittast og sameinast í bíl til að komast á æfingu með liði sínu í Oak Ridge, nokkur hundruð kílómetrum frá Elgin. 

Þegar Roth settist sagðist hún hafa séð mann sitja í farþegasætinu. Hún sagðist hafa orðið hrædd, farið út úr bílnum og inn í bíl vinkonu sinnar á ný.

Maðurinn steig þá út úr bílnum, sem Roth taldi vera sinn, og gekk í átt að bíl vinkonunnar. Roth skrúfaði rúðuna niður til að biðjast afsökunar á að hafa farið inn í rangan bíl en þá dró maðurinn upp byssu og skaut á vinkonurnar.

Vitni sá byssumanninn hleypa nokkrum sinnum af áður en hann flúði af vettvangi.

25 ára gamall maður handtekinn

Lögreglan hefur haft hendur í hári byssumannsins, hins 25 ára gamla Pedro Tello Rodriguez Jr. Honum bíður ákæra fyrir að minnsta kosti svokallaða banvæna hegðun og þá eru frekari ákærur líklegar samkvæmt heimildarmanni ABC 13 fréttastofunnar.

Myndir úr öryggismyndavélum sýna augnablikið þegar Rodriguez skaut á vinkonurnar en myndskeiðið hefur ekki verið opinberlega birt.

Flutt alvarlega særð á spítala

Payton Washington, vinkona Roth, var hæfð í bæði bak og fótlegg og flutt alvarlega særð á spítala en Roth hlaut aðeins skeinusár og fékk meðhöndlun á vettvangi.

„Payton opnaði dyrnar og fór að kasta upp blóði,“ sagði Roth.

Þjálfari liðsins sagði á samfélagsmiðlum að fjarlægja hefði þurft miltað úr Washington og að fleiri líffæri hefðu orðið fyrir skaða. Þjálfarinn sagði að hún myndi gangast undir frekari skurðaðgerðir í vikunni.

Við munum keppa

Þá kom fram í máli eins eiganda liðsins að Washington hafi fyrir skotárásina keppt með aðeins eitt lunga.

Til stóð að hún myndi keppa með liðsfélögum sínum í „Cheerleading Worlds“ keppninni í Orlando um helgina en það er eini titillinn sem hún hefur ekki unnið í klappstýrukeppnum vestra.

„Hún hefur bókstaflega unnið allt nema heimsmeistaratitilinn og þetta var hennar síðasta tækifæri til að gera það,“ sagði eigandinn, Lynne Shearer.

„Hún hefði ekki viljað að liðið myndi draga sig úr keppni svo við förum og við munum keppa,“ sagði Shearer í samtali við ABC 13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert