Tugir manna létust eftir mikinn troðning sem myndaðist í Sanaa höfuðborg Jemen í gærkvöld þegar þurfandi íbúar hópuðust saman til að taka við ölmusu frá verslunarmönnum eins og tíðkast jafnan á þessum árstíma í hinum heilaga mánuði, Ramadan.
Hundruð manna voru saman komnir í skólabyggingu til að þiggja ölmusu sem samsvarar um níu bandaríkjadollurum eða um 1.250 íslenskum krónum, samkvæmt fréttum frá Reuters.
„Það sem gerðist í kvöld var sársaukafullt og hræðilegt slys vegna atburðar sem ekki var haft samráð um við innanríkisráðuneytið,“ sagði talsmaður ráðuneytisins í yfirlýsingu.
Samkvæmt blaðamanni á vettvangi ruddist fólk inn í skólabygginguna þegar forsvarsmenn viðburðarins opnuðu dyrnar fyrir fólkinu.
Hinir látnu og særðu voru fluttir á spítala nærri slysstaðnum og tveir verslunarmenn sem voru í forsvari fyrir viðburðinn hafa verið teknir höndum samkvæmt yfirlýsingunni. Rannsókn hefur verið sett af stað.
Hútar hafa sagst myndu láta um fjögur þúsund bandaríkjadali eða sem samsvarar um 550 þúsund íslenskum krónum renna til fjölskyldna þeirra látnu. Þá hafa þeir sagst myndu greiða hverjum sem slasaðist um 800 bandaríkjadali sem samsvara um 110 þúsund íslenskum krónum.
BBC hefur borið saman myndefni af slysstað við myndefni úr höfuðborginni og komist að því að slysið hafi gerst í Meen-skólanum nærri miðborg Sanaa.
Svona var umhorfs á vettvangi slyssins þegar nærri 80 manns létust í miklum troðningi í skólabyggingu í Sanaa höfuðborg Jemen í gærkvöld.
AFP/Huthi Security Media Office