Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur beðið um stuðning frá Mexíkó við að skipuleggja ráðstefnu með þjóðum frá Suður-Ameríku til að hjálpa til við að binda enda á innrás Rússa í landið.
Þetta kemur fram í skilaboðum sem hann sendi mexíkóskum þingmönnum.
„Úkraína hefur lagt til að samfélag ríkja í Suður-Ameríku skipuleggi sérstaka ráðstefnu, til að sýna samstöðu og hvar þau standa þegar kemur að alþjóðlegum málum sem snúa að svæðum, friði og virðingu á milli fólks,” sagði Selenskí.
Hann sagði að Mexíkó gæti lagt sitt af mörkum við að láta ráðstefnuna verða að veruleika sem fyrst.
Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, sagði í Kína í síðustu viku að Bandaríkin ættu að hætta að „hvetja til“ stríðsins í Úkraínu og að Bandaríkin og Evrópusambandið „verða að byrja að ræða um frið”.
Hann vakti einnig reiði á meðal Úkraínumanna með því að segja að þeir ættu einnig sök að máli þegar kemur að stríðinu og gaf í skyn að Úkraína hefði átt að láta Krímskaga af hendi, sem Rússar innlimuðu árið 2014.
Bandaríkin munu í dag halda fund í Þýskalandi þar sem rætt verður um frekari stuðning við Úkraínu eftir að Selenskí bað Vesturlönd um að senda fleiri herþotur og langdrægar eldflaugar til landsins.
Fulltrúar frá um 50 löndum munu hittast í bandarísku herstöðinni Ramstein til að bera saman bækur sínar.