Kröfu lögmanns Donalds Trumps var hafnað af dómara í New York gær. Bandaríkjaforsetinn fyrrverandi hafði óskað eftir því að kviðdómurum yrði tjáð að ef hann bæri ekki vitni í réttarhöldum yfir sér, væri það eingöngu vegna áhyggna hans af því að valda óeirðum og usla í New York-borg.
Dómari í málinu kvaðst hafa efasemdir um greinargerð Trumps þar sem hann óskaði eftir þessu og hafnaði henni í kjölfarið.
Réttarhöldin eru vegna kæru rithöfundarins og blaðamannsins E. Jean Carroll. Hún hefur sakað Trump um nauðgun, sem hún segir hafa átt sér stað um miðjan tíunda áratuginn.
Samkvæmt Guardian reyndi lögfræðingur Trumps, Joe Tacopina, fyrr í vikunni að fresta réttarhöldunum. Hann óskaði síðan eftir því að kviðdómararnir yrðu upplýstir um ástæðu fjarveru Trumps, kæmi til hennar.
Í bréfi til dómarans, Lewis A. Kaplan, undirstrikaði Tacopina að málsaðilar væru ekki skyldugir til að mæta í borgaraleg réttarhöld ef þeir þyrftu ekki að bera vitni og þannig væri það í tilfelli Trumps. Ef Trump myndi aftur á móti mæta gæti það skapað mikla óreiðu fyrir utan dómshúsið og vildi Tacopina að kviðdómarar yrðu látnir vita af þessu.
Kaplan svaraði því í gær að það væri algjörlega undir Trump sjálfum komið að ákveða hvort hann vildi vera til staðar við réttarhöldin. Sagðist hann ekki samþykkja fullyrðingu Trumps um meintar áhyggjur hans af því að valda glundroða við dómshúsið. Hann væri þess fullviss að bandaríska leyniþjónustan, sem verndar alla fyrrverandi forseta, ásamt lögreglu New York myndu valda verkefninu.
Dómarinn sagðist einnig vita til þess að Trump hyggist tala á kosningaviðburði 27. apríl, á þriðja degi réttarhaldanna í máli Carroll gegn honum. Ef leyniþjónustan væri í stakk búin til að vernda hann á þeim viðburði, væri ekkert því til fyrirstöðu að hún gæti í samvinnu við lögreglu New York verndað hann við réttarhöldin, sagði Kaplan.