Sænsk stjórnvöld boða hertar reglur í atvinnumálum innflytjenda, þar á meðal að hægt verði að gera þiggjendum atvinnuleysisbóta að flytja búferlum þangað sem þeim býðst vinna. „Fullorðið og frískt fólk má búa sig undir að flytja þangað sem vinnan er,“ segir Johan Pehrson atvinnumálaráðherra í samtali við sænska dagblaðið Dagens Nyheter.
Kveður hann raunverulegra aðgerða þörf til að sporna við fjölda þeirra sem eru utangarðs á sænskum vinnumarkaði. Með það fyrir augum hefur starfshópur verið skipaður til að fara í saumana á því hvernig mögulegt sé að virkja fleiri á vinnumarkaði.
Auk þess að gera meiri kröfur til aðlögunar innflytjenda í sænsku samfélagi vill ráðherra leggja meiri ábyrgð á herðar samfélagsþegnanna.
„Munur á atvinnuleysistölum er gríðarlegur, til dæmis í Pajala miðað við Lessebo. Þegar litið er til þess verður fullorðið og frískt fólk að vera búið undir að flytja. Sú krafa kemur til með að verða háværari,“ segir Pehrson en reiknað er með að starfshópurinn kynni tillögur sínar í janúar 2024.