Misklíð um framleiðslu fallbyssukúlna

155 millimetra fallbyssukúlur á leið til Úkraínu í Scranton-skotfæraverksmiðjunni í …
155 millimetra fallbyssukúlur á leið til Úkraínu í Scranton-skotfæraverksmiðjunni í Scranton í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Í Evrópu er deilt um hvort milljón kúlur sem ESB hyggst senda Úkraínumönnum skuli eingöngu framleiddar í Evrópusambandsríkjum. AFP/Hannah Beier

Embættismenn Evrópusambandsins liggja frönskum stjórnvöldum á hálsi fyrir að tefja áætlanir um sameiginleg innkaup sambandsríkja á milljón fallbyssukúlum til handa úkraínska hernum næstu tólf mánuði en ESB féllst á 2,2 milljarða evra kaup á slíkum kúlum í mars. Nemur upphæðin 329 milljörðum íslenskra króna.

Stjórnvöld í Kænugarði í Úkraínu hafa auk annarra hergagna falast eftir fallbyssukúlum til nota gegn Rússum og var samningur um kaup fyrir helming upphæðarinnar undirritaður í síðustu viku. Þær fallbyssukúlur koma úr birgðageymslum aðildarríkjanna en það sem ekki kemur þaðan þarf að framleiða og strandar sá þáttur á samkomulagi um hvort kúlurnar skuli framleiddar innan  Evrópusambandsins að öllu leyti eður ei.

Vilja halda framleiðslunni innan sambands

Upphaflegt samkomulag í mars gerði ráð fyrir að kúlurnar yrðu framleiddar innan „evrópska varnarmálaiðnaðarins“ og í Noregi sem er ekki aðili að ESB. Frakkar, sem verja sína vopnaframleiðslu með klóm og kjafti, mótmæla þessu hins vegar og krefjast þess að framleiðslan verði algjörlega innan Evrópusambandsins.

Auk Noregs kæmi þetta í veg fyrir – fengju Frakkar sínu framgengt – að verksmiðja Rheinmetall í Ástralíu, sem Þjóðverjar eiga meirihluta í, gæti framleitt fallbyssukúlur fyrir þetta verkefni.

Hafa embættismenn nokkurra ESB-ríkja lýst efasemdum sínum um að framleiðendur innan sambandsins einir og sér nái að framleiða milljón fallbyssukúlur tímanlega án þess að reiða sig á aðstoð framleiðenda utan sambandsins.

„Gremjuleg“ vangeta

„Markmiðið með því sem við erum að gera er að reyna að aðstoða Úkraínu [...] allt annað er aukaatriði,“ hefur AFP-fréttastofan eftir einum þeirra. Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, gagnrýndi ESB í gær fyrir „gremjulega“ vangetu til að koma á samningi.

„Hér er kominn prófsteinn á það hvort ESB búi yfir nægu sjálfstæði til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir um öryggismál. Kostnaður aðgerðaleysisins er metinn með mannslífum í Úkraínu,“ skrifaði utanríkisráðherrann á samfélagsmiðla.

Í kjölfar umkvörtunar ráðherra ræddi Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, við hann og fullvissaði hann um að staðið yrði við gefin orð, tveir þriðju hlutar fyrri áfanga samningsins hefðu verið afhentir.

Reiknað er með að utanríkisráðherrar ESB ræði málið á fundi sínum í Lúxemborg á mánudaginn og segja erindrekar að búast megi við samkomulagi áður en næsta vika er öll. Hátt settur embættismaður sambandsins lét þess getið að misklíðin ylli engum töfum á afhendingu kúlnanna til Úkraínu, þær væri þegar verið að senda frá birgðageymslum í álfunni. „Skotfærin verða afhent tímanlega,“ hefur AFP eftir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert