Skipsfundur gæti breytt Noregssögunni

Fornleifafræðingarnir Theo G. Bell, Massimiliano Ditta og Kristoffer Hillesland við …
Fornleifafræðingarnir Theo G. Bell, Massimiliano Ditta og Kristoffer Hillesland við rannsóknir á haugnum í Storhaug í fyrrasumar. Ljósmynd/Fornleifasafn Háskólans í Stavanger/Håkon Reiersen

„Margt bendir til þess að þetta sé seglskip smíðað árið 770, fimmtíu árum á undan Ásubergsskipinu,“ segir Håkon Reiersen, dósent við fornleifasafn Háskólans í Stavanger í Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Fjallar hann þar um skipsfund á Karmøy, eyju úti fyrir Haugesund í Rogaland, sem Snorri Sturluson kallaði Körmt í skrifum sínum. Fannst skipið í fornmannagröf, Storhaug, á Torvastad þar í eynni og þykja mikil stórmerki þar sem fundurinn gæti bent til þess að konungssæti hafi verið í Ögvaldsnesi á Körmt fyrir daga Haraldar hárfagra. Storhaug er elsti grafhaugur sem þekktur er í Skandinavíu.

„Þetta er mjög sérstakur fundur sem varpar nýju ljósi á fyrstu víkingakonungana,“ segir Reiersen dósent og líkir skipsfundinum við Kinder-eggin góðkunnu, súkkulaðiegg með leikfangi hið innra.

Massimiliano Ditta er doktorsnemi og sérfræðingur í keramiki frá fornri …
Massimiliano Ditta er doktorsnemi og sérfræðingur í keramiki frá fornri tíð. Ljósmynd/Fornleifasafn Háskólans í Stavanger/Håkon Reiersen

Fannst við skoðun með jarðsjá

Fornleifafræðingar hafa lengi verið við iðju sína í gröfinni á Storhaug og töldu að lokum að þar væri fullleitað. Athugun með svokallaðri jarðsjá leiddi þó í ljós að ekki voru öll kurl komin til grafar og fannst skipið gamla við eftirgrennslan, fimmtíu árum eldra en sjálft Ásubergsskipið sem fannst í Tønsberg í Suðaustur-Noregi árið 1904.

Bændur í Körmt opnuðu hauginn þegar árið 1886 og byggðu sér reyndar útihús á honum. Fannst úrval gripa í haugnum þegar fornleifafræðingar tóku þar til starfa, tvö sverð, gullarmband og bretti úr gleri sem virðist hafa verið einhvers konar spil.

Keramikbrot sem fundist hafa í haugnum en þar hafa auk …
Keramikbrot sem fundist hafa í haugnum en þar hafa auk þess fundist sverð, gullarmband og fleiri gripir. Ljósmynd/Fornleifasafn Háskólans í Stavanger/Håkon Reiersen

Við hlið skipsins eru leifar af því sem virðist hafa verið smábátur en skipið sjálft er seglskip. „Þessi fundur sýnir okkur að fyrstu víkingakonungarnir sátu í Ögvaldsnesi. Það voru þeir sem lögðu línurnar að konunglegum jarðarförum í Norður-Evrópu og því hvernig konungur skyldi hegða sér,“ segir Reiersen.

...lagði Kǫrmt ok Agðir

Rannsóknarverkefnið sem nú stendur yfir í Karmøy hófst árið 2019 og gengur undir heitinu Maktens havn eða Höfn valdsins enda var Ögvaldsnes aðsetur valdamanna í 3.500 ár. Snýst verkefnið um rannsóknir á gömlum hafnasvæðum umhverfis nesið, sem á nútímamáli heitir Avaldsnes, en hvergi í Noregi liggja fornar skipsgrafir þéttar en í Karmøy.

Vísu þar sem Körmt ber á góma er að finna í Skáld­skap­ar­mál­um Snorra-Eddu en Snorri hef­ur kveðskap­inn eft­ir Þórði Sjáreks­syni. Í Ögvalds­nesi lét Há­kon gamli reisa stein­k­irkju um 1250 en Haraldur hárfagri hafði þar einnig bú sitt á sínum tíma.

Vettvangur rannsóknarinnar og kirkjan í Ögvaldsnesi í bakgrunni.
Vettvangur rannsóknarinnar og kirkjan í Ögvaldsnesi í bakgrunni. Ljósmynd/Fornleifasafn Háskólans í Stavanger/Håkon Reiersen

Ögvalds­nes heit­ir eft­ir Ögvaldi kon­ungi sem seg­ir af í sögu Ólafs kon­ungs Tryggva­son­ar en Ögvald­ur dýrkaði og tilbað kú sína, eða blét hana eins og kallað var í sög­unni og er göm­ul þátíð sagn­ar­inn­ar að blóta. Segir þar af honum: „[...] Ögvaldr var kon­ungr ok hermaðr mik­ill, ok blét kú eina mest, ok hafði hann hana með sér, hvargi er hann fór, ok þótti hon­um þat heil­næmligt at drekka jafn­an mjólk henn­ar.“

Vísa Þórðar Sjárekssonar:

Sveggja lét fyr Siggju
sól­borðs Goti norðan;
gustr skaut Gylfa rast­ar
Glaumi suðr fyr Aum­ar;
en slóðgoti síðan
sæðings fyr skut bæði,
hestr óð lauks fyr Lista,
lagði Kǫrmt ok Agðir.

NRK

Haugesunds Avis (læst áskriftargrein)

Facebook-síða verkefnisins Maktens havn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert