„Margt bendir til þess að þetta sé seglskip smíðað árið 770, fimmtíu árum á undan Ásubergsskipinu,“ segir Håkon Reiersen, dósent við fornleifasafn Háskólans í Stavanger í Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.
Fjallar hann þar um skipsfund á Karmøy, eyju úti fyrir Haugesund í Rogaland, sem Snorri Sturluson kallaði Körmt í skrifum sínum. Fannst skipið í fornmannagröf, Storhaug, á Torvastad þar í eynni og þykja mikil stórmerki þar sem fundurinn gæti bent til þess að konungssæti hafi verið í Ögvaldsnesi á Körmt fyrir daga Haraldar hárfagra. Storhaug er elsti grafhaugur sem þekktur er í Skandinavíu.
„Þetta er mjög sérstakur fundur sem varpar nýju ljósi á fyrstu víkingakonungana,“ segir Reiersen dósent og líkir skipsfundinum við Kinder-eggin góðkunnu, súkkulaðiegg með leikfangi hið innra.
Fornleifafræðingar hafa lengi verið við iðju sína í gröfinni á Storhaug og töldu að lokum að þar væri fullleitað. Athugun með svokallaðri jarðsjá leiddi þó í ljós að ekki voru öll kurl komin til grafar og fannst skipið gamla við eftirgrennslan, fimmtíu árum eldra en sjálft Ásubergsskipið sem fannst í Tønsberg í Suðaustur-Noregi árið 1904.
Bændur í Körmt opnuðu hauginn þegar árið 1886 og byggðu sér reyndar útihús á honum. Fannst úrval gripa í haugnum þegar fornleifafræðingar tóku þar til starfa, tvö sverð, gullarmband og bretti úr gleri sem virðist hafa verið einhvers konar spil.
Við hlið skipsins eru leifar af því sem virðist hafa verið smábátur en skipið sjálft er seglskip. „Þessi fundur sýnir okkur að fyrstu víkingakonungarnir sátu í Ögvaldsnesi. Það voru þeir sem lögðu línurnar að konunglegum jarðarförum í Norður-Evrópu og því hvernig konungur skyldi hegða sér,“ segir Reiersen.
Rannsóknarverkefnið sem nú stendur yfir í Karmøy hófst árið 2019 og gengur undir heitinu Maktens havn eða Höfn valdsins enda var Ögvaldsnes aðsetur valdamanna í 3.500 ár. Snýst verkefnið um rannsóknir á gömlum hafnasvæðum umhverfis nesið, sem á nútímamáli heitir Avaldsnes, en hvergi í Noregi liggja fornar skipsgrafir þéttar en í Karmøy.
Vísu þar sem Körmt ber á góma er að finna í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu en Snorri hefur kveðskapinn eftir Þórði Sjárekssyni. Í Ögvaldsnesi lét Hákon gamli reisa steinkirkju um 1250 en Haraldur hárfagri hafði þar einnig bú sitt á sínum tíma.
Ögvaldsnes heitir eftir Ögvaldi konungi sem segir af í sögu Ólafs konungs Tryggvasonar en Ögvaldur dýrkaði og tilbað kú sína, eða blét hana eins og kallað var í sögunni og er gömul þátíð sagnarinnar að blóta. Segir þar af honum: „[...] Ögvaldr var konungr ok hermaðr mikill, ok blét kú eina mest, ok hafði hann hana með sér, hvargi er hann fór, ok þótti honum þat heilnæmligt at drekka jafnan mjólk hennar.“
Vísa Þórðar Sjárekssonar:
Sveggja lét fyr Siggju
sólborðs Goti norðan;
gustr skaut Gylfa rastar
Glaumi suðr fyr Aumar;
en slóðgoti síðan
sæðings fyr skut bæði,
hestr óð lauks fyr Lista,
lagði Kǫrmt ok Agðir.