Ástralsk-hollenskur leiðangur hefur fundið flak japanska flutningaskipsins Montevideo Maru á um 4.000 metra dýpi 110 kílómetra norðvestur af eynni Luzon sem er sú stærsta af Filippseyjum. Skipið hvarf í hafið 1. júlí 1942 eftir að bandaríski kafbáturinn USS Sturgeon sökkti því er það var á leið frá Nýju-Gíneu til kínversku eyjarinnar Hainan.
Heimsstyrjöldin síðari var í algleymingi og Bandaríkjamenn höfðu lýst yfir stríði á hendur Japönum 8. desember 1941, daginn eftir leifturárás þeirra á flotastöðina Pearl Harbor á Hawaii.
Áhöfn Sturgeon var ekki kunnugt um farminn sem Montevideo Maru flutti.
Sá farmur var langt frá því að vera dauðir hlutir í hefðbundnum vöruflutningum. Um borð í skipinu voru 1.054 stríðsfangar af fjórtán þjóðernum í haldi japanska hersins á leið í fangabúðir. Af þeim hópi voru langflestir ástralskir, 979 manns, þar af um 850 hermenn. Eins voru 33 Norðmenn um borð í þessu örlagafleyi sem sökk niður á hafsbotn þennan júlídag.
Um hálfu ári áður en bandarísku tundurskeytin hæfðu Montevideo Maru á siglingu þess til Kína lá norska flutningaskipið M/S Herstein við bryggju í Rabaul í Nýju-Gíneu, þetta var 20. janúar 1942.
Godtfred Gundersen skipstjóri og áhöfn hans höfðu nýverið skilað af sér breskum hermönnum og búnaði þeirra í höfuðborginni Port Moresby og voru nú að sækja farm af kopar, kókoshnetum, kókosolíu og sápu til Rabaul. Aldrei var þó lagt í haf því þrjár japanskar sprengjuflugvélar steyptu sér af himni ofan og vörpuðu alls sex sprengjum á M/S Herstein.
Skipið gjöreyðilagðist við árásina, eldur kom upp í því og brann það til kaldra kola. Stýrimaðurinn, sem var sænskur, lést og sex aðrir úr áhöfn særðust. Aðra tóku Japanar til fanga, nema Gundersen skipstjóra sem komst undan.
Leið svo fram á sumarið og var norska áhöfnin í haldi í Nýju-Gíneu þar til kom að því að Montevideo Maru skyldi flytja Norðmennina og rúmlega þúsund aðra stríðsfanga til Kína sem fyrr segir.
USS Sturgeon var í sínum fjórða hernaðarleiðangri undir stjórn William Leslie Wright skipherra þegar kafbáturinn komst í færi við japanska flutningaskipið og skaut að því tundurskeytum með þeim afleiðingum að það sökk. Af 88 manna áhöfn tókst 18 að komast til baka til hafnar í Nýju-Gíneu þar sem skæruliðar drápu flesta þeirra. Allir stríðsfangarnir sukku hins vegar niður á hafsbotn með Montevideo Maru, á rúmlega 4.000 metra dýpi en til samanburðar má geta þess að niður á flak Titanic eru 3.800 metrar.
Ástralsk-hollenski leiðangurinn, sem er á vegum áströlsku stofnunarinnar Silentworld Foundation, hóf leit sína 6. apríl með norskan leitardróna frá Kongsberg Maritime að vopni og tólf dögum síðar sáu leiðangursmenn flak, sem dróninn miðlaði þeim með myndbúnaði sínum, og töldu sig þá nokkuð örugglega hafa fundið flutningaskipið japanska. Það var svo í nótt sem þetta var endanlega staðfest.
Ástralar fagna fundinum mjög og einkum því að jarðneskar leifar landa þeirra hafi fundist tímanlega fyrir 25. apríl sem er Anzac Day, sameiginlegur minningardagur Ástrala og Nýsjálendinga um þá þjóðfélagsþegna þessara landa sem týnt hafa lífinu í hernaði.
„Í dag minnumst við þeirrar þjónustu sem þeir inntu af hendi og allra þeirra sem fórust um borð,“ sagði ástralski hershöfðinginn Simon Stuart í dag, eftir að Silentworld-stofnunin gerði tíðindin af skipsfundinum heyrum kunn. „Við minnumst japönsku fangavarðanna 20 og áhafnarinnar, norsku sjómannanna og hundraða borgara frá fjölda landa,“ sagði hann enn fremur.
Ekki verður hróflað við flakinu sem formlega telst vot gröf og mun áfram geyma jarðneskar leifar þeirra 1.054 fanga sem með því fórust.
Þrjú ár liðu þar til ástvinir norsku áhafnarinnar fengu nokkra vitneskju um örlög hennar, það var við stríðslok árið 1945. M/S Herstein hafði verið í ferðum um heimshöfin frá því árið 1940 og var statt í Calcutta á Indlandi þegar Þjóðverjar hertóku Noreg hinn örlagaríka dag 9. apríl 1940.
Allur gangur var á því hvernig fréttir og tíðindi bárust um heiminn á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Það er breska ríkisútvarpið BBC sem hefur heimildir fyrir því að 33 Norðmenn hafi verið í haldi um borð í Montevideo Maru, norska skráin yfir sæfara landsins á stríðstímum, Krigsseilerregisteret, hefur aðeins upplýsingar um 25 manns af M/S Herstein og birtir norska ríkisútvarpið NRK lista yfir þá í dag.
M/S Herstein tilheyrði hinum svokallaða „útiflota“ Noregs sem tók þátt í fjöldamörgum flutningum og annarri aðstoð við bandamenn á stríðstímum enda ráku Norðmenn öfluga andspyrnuhreyfingu í síðari heimsstyrjöldinni sem að hluta til hafði hlotið þjálfun hjá sérsveitum breska hersins, svo sem hin nafntogaða sveit Kompani Linge sem gerði þýska hernámsliðinu marga skráveifuna. Útiflotinn flutti til að mynda 19 prósent allrar olíu sem til Bretlands kom á stríðsárunum og með honum sigldu 25.000 manns.
Knut Hammer, sem nú er 57 ára gamall, er barnabarn Knut Mostad frá Nøtterøy, þriðja stýrimanns á M/S Herstein. „Það kom mér nánast á óvart að finna til einhverra tilfinninga, en það gerði ég,“ segir Hammer við NRK um viðbrögð hans við fréttinni af fundi Montevideo Maru. „Ég hef bara heyrt sögurnar af því sem gerðist. Og svo fór ég að gráta,“ segir Hammer.
„Nú er ég orðinn gamall maður, svo að ég skyldi finna til tilfinninga [...] Ég vissi jú að hann var á þessu skipi en það var bara af því að mamma sagði mér það. Við vorum með myndir af honum uppi á vegg heima,“ heldur hann áfram.
Móðir hans, Helga Marie Hammer, er enn á lífi, 84 ára gömul. Fréttirnar af skipsfundinum létu hana heldur ekki ósnortna. „Ég man ekki eftir pabba. Ég var bara rúmlega eins árs þegar hann sigldi. En ég man þegar presturinn kom og sagði okkur tíðindin,“ segir hún, það var árið 1945. „Því gleymi ég aldrei. Ég fór og faldi mig hreinlega. Ég finn vel fyrir þessu,“ segir dóttir stýrimannsins.
Gundersen, skipstjórinn á M/S Herstein, hljóp inn í skóginn við Rabaul eftir loftárásina 20. janúar 1942. Tveimur dögum síðar réðst japanski herinn inn í Rabaul. Í skóginum rakst norski skipstjórinn á hóp Ástrala og hélt sig með honum. Gengu þeir alls 540 kílómetra næstu 78 daga.
Gundersen hélt dagbók sem nú er í vörslu Krigsseilerregisteret. Ritar hann þar að hópurinn hafi frétt af innrás Japana og nokkrir Ástralanna hafi þá viljað gefa sig fram við innrásarliðið og semja um að vera sendir heim til Ástralíu gegnum Japan.
„Ég hafði hins vegar enga trú á Japönunum,“ skrifar Gundersen, „og til þess að verða ekki þvingaður til að veita þeim dýrmætar upplýsingar ákvað ég að halda mig í skóginum í von um að komast undan og aftur til siðmenningar af eigin rammleik.“
Segir hann frá því hvernig hópurinn hafi að lokum komist til Port Moresby, illa haldinn af hungri og sjúkdómum en helmingur föruneytisins lést á leiðinni, suma drápu japanskir hermenn sem annað veifið komust á slóð hópsins og veittu eftirför.
„Síðar komst ég með farþegaskipi til Sydney. Þegar stríðinu lauk fékk ég að heyra að hinir [úr áhöfninni] hefðu verið teknir höndum og sendir með japönsku fangaskipi sem var skotið í kaf. Þeir fórust allir.“