Tveir látnir eftir misheppnaða flamberingu

Mynd af flamberaðri pítsu, sem dagblaðið El País náði af …
Mynd af flamberaðri pítsu, sem dagblaðið El País náði af vef veitingastaðarins.

Tveir eru látnir og tólf slasaðir eftir eldsvoða á veitingastað í Madríd á Spáni, sem virðist hafa brotist út eftir að þjónn hugðist flambera pítsu fyrir matargesti.

Annar þeirra sem lést var gestur en hinn starfaði á veitingastaðnum, að sögn borgarstjórans Jose Luis Martinez Almeida.

Hlúð hefur verið að tólf slösuðum vegna brunasára og reykeitrunar. Einn þeirra er í lífshættu og fimm eru alvarlega slasaðir.

Logarnir læstust í plastblóm

Borgarstjórinn segir að eldurinn hafi farið af stað þegar þjónn flamberaði pítsu og logarnir læstust í plastblóm sem þöktu loft og súlur staðarins. Um þrjátíu manns voru þá inni á staðnum.

Vitni tjá dagblaðinu El País að þjónninn hafi hellt alkóhóli yfir réttinn og kveikt í því, til að flambera. Er þetta oft gert í augsýn matargesta til að auka á upplifunina og gefa réttinum reykjarkeim.

Kviknaði í öllu á sekúndubragði

„Þjónninn var með logandi réttinn í annarri hendi og blásturskveikjara í hinni. Hann fór framhjá súlu sem var umvafin plöntum og á sekúndubragði þá kviknaði í öllu,“ segir einn gesta í samtali við blaðið.

Slökkviliðsmenn náðu að bregðast skjótt við enda er næsta slökkvistöð aðeins nokkur hundruð metrum frá, að sögn borgarstjórans.

Veitingastaðurinn nefnist Burro Canaglia og stendur við Manuel Becerra-torgið í spænsku höfuðborginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert