Sex limlestir nautgripir hafa fundist dauðir í þremur mismunandi sýslum í Texas-ríki í Bandaríkjunum.
Áverkarnir á nautgripunum eru taldir nokkuð furðulegir en búið var að skera skinnið öðru megin af munn og kjálkasvæði gripanna auk þess sem búið var að skera tunguna úr dýrunum.
Þá fylgir það sögunni að skurðirnir hafi greinilega verðir gerðir af mikilli nákvæmni. Í öllum tilfellum hafi nautgripirnir fundist dauðir, liggjandi á hliðinni í grasi. Engin ummerki um átök, mannaferðir eða vélanotkun hafi verið á svæðunum. Þá sé engin ummerki um blóðsúthellingar að finna á svæðunum. Dagblaðið New York Times greinir frá.
Á tveimur af fimm nautgripum var búið að skera og fjarlægja endaþarm og utanáliggjandi æxlunarfæri. Ekkert er vitað um dánarorsök gripanna.
Lögreglan í Madison-sýslu í Texas greindi frá nýjasta tilfellinu og mynstrinu sem hafði skapast á dögunum miðað við upplýsingar frá öðrum lögregluembættum.
Í tilkynningunni, sem má sjá hér að neðan, kemur fram að fleiri keimlík tilfelli hafi átt sér stað á öðrum svæðum í Bandaríkjunum.
Í umfjöllun New York Times um málið kemur fram að hrina svipaðra tilfella hafi komið upp á áttunda áratug síðustu aldar.
Þá hafi getgátur verið uppi um að satanískir sértrúarsöfnuðir væru að verki eða einfaldlega geimverur. Málin hafi verið rannsökuð en endað óupplýst.