„Magnaðasta augnablik lífs míns“

Segja má að ísbirnir hafi verið daglegt brauð í síðasta …
Segja má að ísbirnir hafi verið daglegt brauð í síðasta úthaldi Torfoss á Hopen en þá sá hópur hans þá alls 226 sinnum, mun oftar en í fyrri dvöl hans á eyjunni fyrir sex árum. Ljósmynd/Ted Torfoss

„Ég náði í riffilinn og hlóð hann. Fékk mér svo sæti og hugsaði með mér hvað ég ætti að gera núna, ég gæti ekki bara setið hér. Svo ég fetaði mig varlega að glugganum og kíkti út,“ segir Ted Torfoss, umsjónarmaður veðurathugunarstöðva norsku veðurstofunnar Meteorologisk Institutt, í samtali við mbl.is.

Torfoss situr í makindum heima í Ósló í þessu viðtali enda fer starf hans alla jafna fram í höfuðstöðvum stofunnar í Blindern í norsku höfuðborginni. Frá þessu hafa þó verið nokkrar minnisstæðar undantekningar. Hann hefur ferðast um, starfað og búið í Afríku og Suður-Ameríku og heimsótt dýr, sem ekki finnast annars staðar en í dýragörðum í Evrópu, en fyrir sex árum var komið að því að reyna öfgarnar í hina áttina ef svo mætti segja.

Bannað að tala um pólitík og trúmál

Hopen er örsmá eyja í Svalbarðaklasanum, 185 kílómetra austur af syðsta odda Spitsbergen, 47 ferkílómetrar, 33 kílómetrar að lengd og tveir þar sem hún er breiðust. Fjarlægðin frá nyrsta odda meginlandsins er rúmir 600 kílómetrar. Eyjan er nánast strik sé hún skoðuð í veraldarsjá Google. Þar heldur veðurstofan úti veðurathugunarstöð með fjögurra manna vakt sem dvelur þar sex mánuði í senn.

Aðflug að Hopen. Myndin sýnir glöggt lögun eyjarinnar sem er …
Aðflug að Hopen. Myndin sýnir glöggt lögun eyjarinnar sem er 33 kílómetra löng en breiddin öllu minni. Ljósmynd/Ted Torfoss

„Og það er bannað að tala um pólitík og trúmál!“ segir Torfoss og hlær, „þú hittir hópinn sem þú átt að vera með í sex mánuði daginn áður en lagt er af stað og þetta getur auðvitað verið viss áskorun. Hér þarf að gæta þess vel að virða persónulega svæðið hjá hverjum og einum,“ segir Torfoss og hljómar mjög sannfærandi.

Um þetta ævintýri Torfoss þarf að sækja sérstaklega hjá veðurstofunni – og hjá makanum. Kannski er síðari umsóknin öllu veigameiri. „Ég byrjaði hjá veðurstofunni árið 2009 og sá sem ég tók við starfinu af þá var á leið til Hopen. Það var í fyrsta skipti sem ég heyrði um þessa litlu eyju og ég man að ég hugsaði með sjálfum mér hvort þetta væri virkilega hægt, að sækja um að vera þarna lengst úti í hafi í hálft ár,“ segir Torfoss.

Alltaf kokkur í hópnum

Og það er vissulega hægt. Fólk þarf ekki einu sinni að starfa hjá veðurstofunni til að komast til Hopen, allir geta sótt um. Reyndar gilda þó vissar fagkröfur um tvær af fjórum stöðum hvers hóps. Einn í hópnum er alltaf lærður kokkur, örbylgjumatur í hálft ár er varla spennandi kostur fyrir nokkurn mann. Annar er tækja- og vélavörður og þarf að hafa einhvers konar menntun sem nýtist á þeim vettvangi.

Móðir og afkvæmi forvitnast um hagi mannfólksins, fjögurra manna hóps …
Móðir og afkvæmi forvitnast um hagi mannfólksins, fjögurra manna hóps sem fylgist með veðrinu á 47 ferkílómetra stórri eyju í Barentshafi þar sem tuga gráða frost heyrir ekki til tíðinda. Ljósmynd/Ted Torfoss

Sá þriðji er stöðvarstjórinn og skilyrði að hann hafi verið minnst eitt sex mánaða tímabil á staðnum áður. Fjórða staðan er svo staða veðurfulltrúa, „meteorologi fullmektig“ á norsku. Hún krefst ekki sérstakrar menntunar en viðkomandi hlýtur starfsþjálfun áður en hann fer út í hafið. Auk þessa eru þrír hundar á vettvangi, sérstakrar menntunar ekki krafist.

„Þetta varð strax draumurinn minn,“ rifjar Torfoss upp, „ég ákvað að þegar börnin yrðu farin að heiman skyldi ég sækja um þetta og fara til Hopen í hálft ár.“ Og það gerði hann, fyrst veturinn 2017 til '18, en sú upplifun nægði honum ekki svo hann tók annað úthald í fyrravetur, 2021 til '22. „Þá þurfti ég virkilega að semja við eiginkonuna,“ segir Torfoss sem nú hefur alið manninn samanlagt eitt ár af sínu 65 ára lífi nánast á hjara veraldar.

Meiri félagsskapur á Jan Mayen

Hopen er ein þriggja veðurathugunarstöðva norsku veðurstofunnar á eyjunum norðan við landið, hinar eru á Jan Mayen og Bjarnarey, sem skoski spennusagnahöfundurinn Alistair MacLean heitinn kom rækilega á heimskortið með samnefndri skáldsögu. Báðar framantöldu stöðvarnar eru fjölmennari, reyndar bara tveir frá veðurstofunni á Jan Mayen en þeir starfa í herstöð sem norski herinn heldur þar úti svo félagsskapurinn er um tuttugu manns.

Vissara er að búa sig þokkalega á Hopen þar sem …
Vissara er að búa sig þokkalega á Hopen þar sem vindurinn getur orðið allhvass og mínusgráðurnar margar. Og aldrei er farið úr húsi án riffilsins. Ljósmynd/Ted Torfoss

„Stór hluti af löngun minni til að dvelja þarna var að sjá ísbirni í návígi, mig langaði virkilega til að upplifa það, annars vissi ég ekkert hvað ég var að fara út í. Þegar ég fór í annað skiptið vissi ég það hins vegar upp á hár,“ segir Torfoss og kveður hjartað hafa hamast í brjóstinu í hvert skipti sem farið var út úr höfuðstöðvum fjórmenninganna, stigið út á vit hins óvænta.

„Þá var maður að fara út fyrir þægindarammann sinn. Maður fer aldrei út án þess að vera með riffil og maður veit aldrei hverju maður mætir. Sú spenna var alveg jafn mikið til staðar þegar ég fór í annað skiptið eins og hún var í fyrri dvölinni,“ segir hann.

Torfoss iðkaði gönguferðir mjög á Hopen, gekk á hverjum degi og naut útiverunnar. „Þú þarft ekki að taka margar ákvarðanir þarna, þú getur bara farið til hægri eða vinstri,“ segir hann í léttum dúr. Mest upplifði hann 28 gráða frost á eyjunni en þar blæs þó gjarnan vel og með vindkælingu bítur kuldinn mun fastar.

Þjónusta þyrlur í neyðarflugi

„Í myrkri fer maður aldrei út nema tveir og tveir séu saman og svo er alltaf hundur með, bæði öryggisins vegna og svo eru þeir líka bara huggulegur félagsskapur,“ segir hann af reglunum enda ekki hlaupið að því að koma manneskju á sjúkrahús frá Hopen komi eitthvað fyrir.

Norskir ísbirnir eru þekktir fyrir ríka þjóðarvitund og hér er …
Norskir ísbirnir eru þekktir fyrir ríka þjóðarvitund og hér er fáninn hylltur. Ljósmynd/Ted Torfoss

Í slíkum tilfellum kæmi þyrla frá Longyearbyen á Spitsbergen en ekki þarf mikinn veðurofsa, alla vega ekki á mælikvarða Hopen, til að hún geti ekki lent. Hluti af verkahring fjórmenninganna er að taka á móti þyrlum í neyðarflugi sem þurfa að lenda á Hopen og taka eldsneyti, birgðageymsla við bækistöð veðurfólksins geymir alltaf 15 til 20 þúsund lítra og stundum geta áhafnir stoppað í einn kaffibolla ef ekki er algjörlega um líf og dauða að tefla. Slíkar heimsóknir segir Torfoss hafa verið mikla tilbreytingu.

„Við erum þarna fyrst og fremst til að fylgjast með veðrinu og passa upp á veðurstöðina. Veðurathuganir eru framkvæmdar á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn, þá erum við á vöktum, dagvakt og næturvakt til skiptis og svo einn frídagur. Við fylgjumst með skyggni skýjafari, skýjahæð og skýjagerð en sjálfvirk mælitæki fylgjast með vindátt, hitastigi og loftþrýstingi og svo er úrkomumæling tvisvar á sólarhring. Þessu sinna þrír starfsmenn, allir nema kokkurinn,“ útskýrir Torfoss.

Ævintýrið í Bjarnabælinu

Frásögnin sem gripið var niður í hér í upphafi er hins vegar ekki af atburðum í sjálfri bækistöðinni heldur í litlum kofa hinum megin á Hopen, Bjarnabælinu svokalla eða Bjørnebo. Þangað eru um tíu kílómetrar og hægt að ganga annaðhvort yfir ísilagðan sjó, sé ísinn traustur, eða yfir fjallið sem krefst öflugra mannbrodda á skóm. Neyðarblys, riffill og hundur eða hundar ávallt með í för.

„Hríðar um gættir, hreysið skelfur,/hrikta bjálkar og dyr./Skáldið í Bólu …
„Hríðar um gættir, hreysið skelfur,/hrikta bjálkar og dyr./Skáldið í Bólu er skinið af hungri,/en skapið líkt og fyr,“ byrjar skáldið frá Fagraskógi Askinn, magnað kvæði sitt um örlög Bólu-Hjálmars, og Bjarnabælið á Hopen ber kannski örlítinn svip af Bólu í Skagafirði á dögum skáldsins sem brigslað var um sauðaþjófnað. Ljósmynd/Ted Torfoss

„Ég hef aldrei skotið af rifflinum nema á æfingum,“ tekur veðurathugunarmaðurinn fram. „Ég hef aldrei talið mig í raunverulegri hættu en það var stærsta upplifun ævi minnar þegar ísbirnirnir komu. Fyrsta heimsóknin mín í kofann var tíðindalaus og ég varð ekki var við neitt,“ segir hann.

Annað var uppi á teningnum í næstu heimsókn. „Þá var ég með tvo hunda með mér og sat og las. Þegar maður gistir í kofanum finnur maður virkilega fyrir því að maður er á eyðieyju og langt til byggða, líka langt í næstu lifandi manneskju. Að vera þarna yfir nótt er ótrúlega sérstök upplifun,“ segir hann og talinu víkur að heimsókninni góðu.

„Allt í einu heyri ég að það er krafsað í vegginn svo ég lít út um gluggann og þar stendur þá ísbjörn og horfir inn til mín. Og ég vissi það mætavel að ef björninn ætlar inn þá kemur hann inn. En fólk er almennt ekki ísbjarnamatur, þeir þurfa að vera mjög svangir til að hætta stafi af þeim eða ungir, húnarnir hafa stundum ekki lært allar lífsreglurnar.

Skíðafærið er oft með besta móti á Hopen og hægt …
Skíðafærið er oft með besta móti á Hopen og hægt að hraða för með gönguskíðum ef svo ber undir. Ljósmynd/Ted Torfoss

Steinþegjandi undir rúmi

Ég náði í riffilinn og hlóð hann. Fékk mér svo sæti og hugsaði með mér hvað ég ætti að gera núna, ég gæti ekki bara setið hér. Svo ég fetaði mig varlega að glugganum og kíkti út,“ segir Torfoss af kynnum sínum við frumbyggja Hopen.

„Þá var hann bara eitthvað að þvælast þarna og ég hugsaði með mér að ég yrði að fæla hann í burtu. Hundarnir voru nú ekki miklir varðhundar, þeir lágu steinþegjandi undir rúmi,“ segir Torfoss og hlær dátt. „Svo skaut ég neyðarblysi út um gluggann og þá hljóp hann. Ísbirnir eru auðfældir en þeir eru forvitnir og vilja koma að skoða.“

Þær eru ekki margar skrifstofurnar í heiminum sem bjóða upp …
Þær eru ekki margar skrifstofurnar í heiminum sem bjóða upp á þennan félagsskap rétt fyrir utan gluggann. Ljósmynd/Ted Torfoss

Veðurathugunarmaðurinn upplifði heimsóknina mjög sterkt. „Ég settist og fór að lesa aftur og las svo sömu blaðsíðuna 75 sinnum. Ég var í öðrum heimi. Tveimur eða þremur tímum síðar er svo krafsað aftur í kofann,“ segir hann frá.

Var þar kominn björn sem Torfoss telur ekki hafa verið þann sama og í fyrra sinnið. „Þessi kíkir líka inn um gluggann og nú er ég rólegri og fer út í glugga. Sú upplifun var hreint ótrúleg, að horfast í augu við dýrið og það var ein glerrúða á milli okkar, aðeins nokkrir sentimetrar voru milli nefja okkar. Mér fannst við eiga þarna mjög góða samræðu, hún varði heila eilífð fannst mér, voru kannski fimm sekúndur,“ segir hann og hlær.

Þarf að fara út til að síminn virki

Hann flæmdi svo þennan gest einnig á brott og síðar um nóttina fékk hann svo eina heimsókn til. „Sá ætlaði upp á þak, það var nú ekki nógu gott. En mér tókst að stugga við honum líka. Um morguninn var svo ekkert að sjá úti. Ég hleypti hundunum út fyrst til öryggis en þar var þá ekkert að sjá nema ísbjarnaspor. Svo gengum við til baka til stöðvarinnar og sáum enga birni á leiðinni.“

Svona lítur bækistöð veðurathugunarfólksins á Hopen út en Bjarnabælið, kofinn …
Svona lítur bækistöð veðurathugunarfólksins á Hopen út en Bjarnabælið, kofinn góði, er um tíu kílómetra frá og upplagt að taka göngutúr og dvelja þar yfir nótt. Stundum er þar gestkvæmt. Ljósmynd/Trond Helland

Auk riffils, hunda og neyðarblysa er gervihnattasími með í för í lengri gönguferðum. „Vandamálið er að til að hann virki þarf að fara út úr kofanum,“ segir Torfoss glettnislega og bætir því við að þessi svarta nótt með sínum hvítu gestum hafi verið hans stærsta upplifun á ævinni – með fullri virðingu fyrir fílum og ljónum í Afríku.

Ísbirnirnir haldi sig þó mest úti á ísnum enda háðir því að hafa aðgang að hafinu til að veiða sér til lífsviðurværis en þar er selurinn efst á matseðlinum. Allt er þetta þó miklum breytingum undirorpið nú á tímum hlýnandi heims, ísinn sé einfaldlega hvort tveggja minni að umfangi og þynnri.

„Hér sé guð,“ gæti þessi verið að segja að fornum …
„Hér sé guð,“ gæti þessi verið að segja að fornum sið, þegar gestir guðuðu á glugga sem kallað var svo heimafólk teldi ekki að þar færu draugar, tröll eða forynjur. Ljósmynd/Ted Torfoss

„Ég var mjög heppinn með dvölina núna síðast, þá sáum við ísbirni 226 sinnum, en þegar ég var á Hopen fyrra tímabilið, fyrir sex árum, voru tilfellin ekki nema 56. Þetta gengur upp og niður en í heildina er ísbjörnum að fækka á svæðinu vegna hlýnunarinnar. Ísinn kemur alltaf seinna og seinna og hann verður þynnri og þynnri,“ segir Torfoss.

Varla björn á Bjarnarey orðið

Enn fremur bendir hann á tölfræði yfir ísbjarnarhíði á Hopen. „Við vorum með kort yfir híði frá 1996, þá voru 30 híði á Hopen, þangað komu birnirnir til að leggjast í dvala, núna er ekki eitt einasta híði þar, ísinn kemur ekki lengur nógu nálægt eyjunni,“ segir hann og vísar einnig til tölfræði frá Bjarnarey þar sem tvö til þrjú hundruð sinnum sást til ísbjarna í hverju úthaldi veðurathugunarfólks áður fyrr.

Torfoss og samstarfsfólkið sáu ísbirni 226 sennum í síðari dvöl …
Torfoss og samstarfsfólkið sáu ísbirni 226 sennum í síðari dvöl hans á Hopen en á Bjarnarey er veðurathugunarfólk nánast hætt að verða vart við þá í hlýnandi heimi. Ísinn leggst ekki lengur upp að eyjunni auk þess sem hann er mun þynnri og minni um sig en áður. Ljósmynd/Ted Torfoss

„Eftir 2010 hefur varla sést þar björn, ísinn leggst ekki lengur upp að eyjunni.“ Torfoss spáir því að þróunin verði sú sama á Hopen áður en langt um líður.

Hann kveður það ótrúlega upplifun fyrir borgarbarn frá Ósló að geta gengið upp á fjall á Hopen og haft þá hafið á báða bóga. „Norðurljósin eru líka nánast sífellt sýnileg,“ segir Torfoss sem er minna spenntur fyrir sumartímanum á eyjunni, „þá er mjög mikið um þoku og svo bráðnar snjórinn að einhverju leyti og þá er eyjan mikið til mýri. En myrkrið þarna á nóttunni er algjört ef ekki er stjörnubjart eða tunglskin.

Það gat verið svolítið óhugnanlegt að vera á göngu með höfuðljós sem lýsti bara þangað sem maður horfði. Annars staðar var svartamyrkur og maður vissi ekkert hvað leyndist þar,“ segir Torfoss og ljóðlína Davíðs Stefánssonar um brennandi vitana kemur upp í hugann, „nótt til beggja handa“.

„Það eru bara ég og ísbirnirnir, ég og náttúran, þarna …
„Það eru bara ég og ísbirnirnir, ég og náttúran, þarna á milli er ekkert skilrúm, engin sía.“ Ljósmynd/Ted Torfoss

„Að fá að upplifa eitthvað svona án þess að þurfa að vera vísindamaður eru auðvitað gríðarleg forréttindi, það er eiginlega ekkert sem kemst nálægt því að vera þessu líkt. Og ekkert kemst í hálfkvisti við þá upplifun að sjá ísbirnina. Það eru bara ég og ísbirnirnir, ég og náttúran, þarna á milli er ekkert skilrúm, engin sía,“ segir Ted Torfoss, veðurstofustarfsmaður í Noregi, að lokum. Hann hyggst þó ekki leggja það á konu sína að fara þriðju förina til Hopen, nóg er upplifað á tólf mánuðum við mörk hins byggilega heims.

Svona lítur Hopen út, hálfgerð ræma milli norska fastlandsins og …
Svona lítur Hopen út, hálfgerð ræma milli norska fastlandsins og Svalbarða og vafalítið reynsla sem seint gleymist að ala þar manninn í sex vetrarmánuði. Kort/Norsk Polarinstitutt
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert