Norðurlandaþjóðir flytja borgara sína burt

Frá höfuðborginni Khartoum í gær.
Frá höfuðborginni Khartoum í gær. AFP

Ástandið í Súdan fer versnandi sem hefur leitt til þess að fleiri ríki hafa ákveðið að flytja ríkisborgara sína á brott. Danmörk, Noregur og Svíþjóð vinna nú að því að koma borgurum sínum úr landinu.

Harðir bardagar hafa geisað síðan 15. apríl á milli Súdanshers og uppreisnarhersins RSF eftir að ekki tókst að halda umsamið vopnahlé í landinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er ekki vitað um Íslendinga í Súdan.

Svíar senda 150 manna her

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur ákveðið að senda 150 manna her til landsins til þess að sækja ríkisborgara sína, en um hundrað Svíar eru sagðir vera í Súdan.

Þá eru þrír norskir diplómatar í Khartoum, höfuðborg Súdans. Ekki hefur tekist að koma þeim úr landi, en Eivind Vad Petersson, ráðuneytisstjóri norska utanríkisráðuneytisins, segir það vera í forgangi.

„Okkur er umhugað um að koma okkar fólki burt á öruggan hátt,“ segir Vad Petersson við norska ríkisútvarpið. Hann útilokar ekki að senda herlið líkt og Svíar, en um sjötíu norskir ríkisborgarar eru í Súdan.

Danmörk er ekki með sendiráð í Súdan en danska ríkisútvarpið greinir frá því að þrjátíu Danir séu í landinu.

Íbúar í Khartoum fylla tunnur af vatni, en átökin hafa …
Íbúar í Khartoum fylla tunnur af vatni, en átökin hafa leitt til mikils vatnsskorts. AFP

Frakkland og Tyrkland hafið brottflutning

Þá hafa Frakkland og Tyrkland hafið brottflutning sinna diplómata og ríkisborgara. Utanríkisráðuneyti Frakklands greinir frá því að aðrir evrópskir ríkisborgarar verði einnig aðstoðaðir, án þess þó að gefa upp frá hvaða löndum.

Bandaríski herinn hefur flutt bandaríska diplómata og fjölskyldur þeirra frá Khartoum vegna átakanna.

Um 16 þúsund bandarískir ríkisborgarar eru í Súdan. Bandaríska sendiráðinu þar hefur nú verið lokað og er óljóst hvenær starfsemin getur hafist að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert