Segir Wagner-liða hætta að taka stríðsfanga

Jevgení Prigosjín, yfirmaður rússnesku Wagner-málaliðasveitarinnar.
Jevgení Prigosjín, yfirmaður rússnesku Wagner-málaliðasveitarinnar. AFP/Telegram/@concordgroup_official

Jevgení Prigosjín, yfirmaður rússnesku Wagner-málaliðasveitarinnar, segir menn sína sem berjast í fremstu víglínu við borgina Bakmút í Úkraínustríðinu ekki munu taka fleiri úkraínska hermenn sem stríðsfanga. Þess í stað verða allir óvinahermenn drepnir á vígvellinum.

Myndskeið var fyrir skömmu birt á Telegram-síðu Wagner-málaliðanna sem sýnir tvo hermenn, sem sagðir eru úkraínskir, skjóta rússneskan stríðsfanga. Ekki kom fram hvar myndskeiðið var tekið og er talið ómögulegt að sanna hvort um sviðsettan eða raunverulegan atburð hafi verið að ræða.

„Við munum drepa alla á vígvellinum. Við tökum enga stríðsfanga!“ mátti heyra Prigosjín segja í hljóðupptöku frá því í gær. 

Segjast ekki vilja brjóta lög

„Við vitum ekki nafnið á okkar manni sem skotinn var af Úkraínumönnunum,“ sagði Prigosjín og bætti við að samkvæmt alþjóðalögum bæri sveitum hans að sjá um og meðhöndla stríðsfanga, ekki meiða þá. 

Hann sagði Wagner-málaliðanna ekki vilja gerast brotlegir við lög og því ætti að drepa alla úkraínska hermenn á vígvellinum.

Ásakanir hafa gengið á víxl milli Moskvu og Kænugarðs um aftökur stríðsfanga frá því stríðið hófst í febrúar á síðasta ári.

Fyrr í mánuðinum sagði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, Rússa vera skepnur eftir að myndskeið, sem virtist sýna afhöfðun úkraínsks stríðsfanga, fór í dreifingu.

Prigosjín hefur neitað ásökunum um að Wagner-málaliðarnir hafi staðið að baki aftökunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert