Einn vinsælasti þáttastjórnandi sjónvarpsstöðvarinnar Fox, Tucker Carlson hefur nú sagt skilið við stöðina.
Þessu greinir Guardian frá. Ákvörðunin fylgir fast á hæla niðurstöðu meiðyrðamáls sem kosningafyrirtækið Dominion Voting Systems (DVS) höfðaði gegn fjölmiðlasamsteypu Fox fyrir að halda því fram að forsetakosningunum árið 2020 hefði verið stolið.
DVS höfðaði málið gegn Fox fyrir að hafa leyft röngum og misvísandi upplýsingum um stuld bandarísku forsetakosninganna árið 2020 að grassera á miðlum sínum. Sættir náðust í málinu rétt áður en að réttarhöld áttu að hefjast og þurfti Fox að greiða DVS 787,5 milljónir dala í bætur eða um 109,7 milljarða króna.
Í sönnunargögnum sem að DVS færðu fram máli sínu til stuðnings kom meðal annars fram að á meðan að fréttamenn ýttu undir orðræðu Trump um stuld kosninganna þegar þeir voru á skjám landsmanna vísuðu þau þeim fullyrðingum á bug við kollega sína.
Carlson hélt því sjálfur fram að hann hataði Trump þegar hann ræddi við kollega sína en sýndi allt annað viðmót á skjánum.
Í tilkynningu frá Fox vegna brotthvarfs Carlson úr starfi kemur fram að um sameiginlega ákvörðun hafi verið að ræða. Carlson er þakkað fyrir sitt vinnuframlag og honum óskað velfarnaðar í framtíðinni. Athygli hefur vakið að í lok síðasta þáttar Carlson, sem sýndur var þann 21. apríl síðastliðinn kvaddi Carlson áhorfendur eins og hann yrði aftur mættur á skjáinn í dag, mánudag.
Þá þykir einnig óvenjulegt að Carlson hafi ekki fengið að kveðja áhorfendur sína með lokaþætti.
Carlson hefur unnið sem sjónvarpsmaður síðan árið 1995 og starfað á Fox frá árinu 2009. Hann hefur verið verulega umdeildur og stutt fjölda eldfimra ummæla Donald Trump en notið mikilla vinsælda meðal áhorfenda Fox.