Tucker Carlson hættir hjá Fox

Tucker Carlson er einn vinsælasti sjónvarpsmaður í Bandaríkjunum, þó að …
Tucker Carlson er einn vinsælasti sjónvarpsmaður í Bandaríkjunum, þó að sannarlega sé hann umdeildur. AFP

Einn vin­sæl­asti þátta­stjórn­andi sjón­varps­stöðvar­inn­ar Fox, Tucker Carl­son hef­ur nú sagt skilið við stöðina. 

Þessu grein­ir Guar­di­an frá. Ákvörðunin fylg­ir fast á hæla niður­stöðu meiðyrðamáls sem kosn­inga­fyr­ir­tækið Dom­ini­on Vot­ing Systems (DVS) höfðaði gegn fjöl­miðlasam­steypu Fox fyr­ir að halda því fram að for­seta­kosn­ing­un­um árið 2020 hefði verið stolið.  

DVS höfðaði málið gegn Fox fyr­ir að hafa leyft röng­um og mis­vís­andi upp­lýs­ing­um um stuld banda­rísku for­seta­kosn­ing­anna árið 2020 að grass­era á miðlum sín­um. Sættir náðust í málinu rétt áður en að réttarhöld áttu að hefjast og þurfti Fox að greiða DVS 787,5 milljónir dala í bætur eða um 109,7 milljarða króna.

Óvenjulegt að hann fái ekki kveðjuþátt

Í sönn­un­ar­gögn­um sem að DVS færðu fram máli sínu til stuðnings kom meðal ann­ars fram að á meðan að fréttamenn ýttu und­ir orðræðu Trump um stuld­ kosn­ing­anna þegar þeir voru á skjám landsmanna vísuðu þau þeim full­yrðing­um á bug við koll­ega sína. 

Carlson hélt því sjálfur fram að hann hataði Trump þegar hann ræddi við kollega sína en sýndi allt annað viðmót á skjánum.

Í tilkynningu frá Fox vegna brotthvarfs Carlson úr starfi kemur fram að um sameiginlega ákvörðun hafi verið að ræða. Carlson er þakkað fyrir sitt vinnuframlag og honum óskað velfarnaðar í framtíðinni. Athygli hefur vakið að í lok síðasta þáttar Carlson, sem sýndur var þann 21. apríl síðastliðinn kvaddi Carlson áhorfendur eins og hann yrði aftur mættur á skjáinn í dag, mánudag.

Þá þykir einnig óvenjulegt að Carlson hafi ekki fengið að kveðja áhorfendur sína með lokaþætti.

Carlson hefur unnið sem sjónvarpsmaður síðan árið 1995 og starfað á Fox frá árinu 2009. Hann hefur verið verulega umdeildur og stutt fjölda eldfimra ummæla Donald Trump en notið mikilla vinsælda meðal áhorfenda Fox.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert