Yfirlæknir rekinn vegna kynferðisbrots

Yfirlækni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hefur verið vikið úr starfi vegna kynferðisbrots.
Yfirlækni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hefur verið vikið úr starfi vegna kynferðisbrots. AFP

Yfirlækni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hefur verið vikið úr starfi vegna kynferðisbrots.

Læknirinn Temo Waqanivalu er meðal annars grunaður um að hafa brotið á breska lækninum Rosie James, en hún birti í janúar tíst þar sem hún sagði starfsmann stofnunarinnar hafa brotið á sér kynferðislega á heilbrigðisráðstefnu WHO í Berlín í október síðastliðnum.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, svaraði tísti James og kvaðst harmi sleginn yfir ásökununum. Ghebreyesus ítrekaði að stofnunin hefði ekkert umburðarlyndi fyrir kynferðisofbeldi og bauð James persónulega aðstoð sína í málinu. 

Áður sakaður um brot

Waqanivalu hefur verið sakaður um svipað brot árin 2018 og 2017. Hvorugt málanna hefur haft áhrif á starf hans innan stofnunarinnar. 

Á þeim tíma sem James áskaði hann um brotið, var Waqanivalu talinn líklegur til að hljóta æðstu stöðu stofnunarinnar í vesturhluta Kyrrahafssvæðisins, en hann er sjálfur frá Fídjí.

Árið 2021 kom fram í óháðri skýrslu að 21 starfsmaður WHO væri meðal 83 mannúðarstarfsmanna sem sakaðir voru um að hafa brotið kynferðislega á, eða beitt ofbeldi, tugum manna í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, á meðan ebólafaraldurinn geisaði þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert