Hinn ákærði í máli Filippu til rannsóknar í óupplýstu máli

Danska lögreglan rannsakar nú hvort hinn ákærði, í mannránsmáli hinnar …
Danska lögreglan rannsakar nú hvort hinn ákærði, í mannránsmáli hinnar 13 ára Filippu, hafi tengsl við óupplýst morðmál. Vefur lögreglunnar

Danska lögreglan rannsakar um þessar mundir hvort hinn ákærði í hvarfi hinnar 13 ára gömlu Filippu, hafi átt aðild að óupplýstu manndrápi frá árinu 2016.

Maðurinn, sem er 32 ára, hefur áður verið yfirheyrður vegna málsins og er sagður hafa keyrt sömu bílgerð og lögreglan lýsti eftir á sínum tíma.

Málið sem umræðir varðar andlát hinnar 17 ára gömlu Emilie Meng. Það hefur verið óupplýst í nær sjö ár, en hún sást síðast við lestarstöð í heimabæ sínum í Korsör, þann 10. júlí árið 2016. Lík hennar fannst fjórum mánuðum síðar í mýri í bænum Borup, 65 kílómetrum frá lestarstöðinni. Filippa fannst á lífi á heimili mannsins, í Korsör, fyrr í þessum mánuði og var hann handtekinn á staðnum. 

Hvarf Filippu fyrr í mánuðinum vakti mikinn óhug meðal Dana og þótti mörgum líkjast máli Emilie. En líkindi milli málanna hafa leitt til vangaveltna meðal almennings og fjölmiðla um hvort málin tvö gætu verið tengd. 

Rannsaka bíl í Slóvakíu

Lögregla fékk ábendingar um silfurlitaða Hyundai i30 bifreið fyrir utan lestarstöðina í Korsör á þeim tíma sem Emilie hvarf og lýstu eftir því að ná tali af bílstjóranum. Enginn gaf sig fram sem bílstjóri bifreiðarinnar á sínum tíma.

Danski miðillinn BT greindi nýverið frá því að áreiðanlegar heimildir væru fyrir því að hinn ákærði í máli Filippu hefði keyrt silfurlitaða Hyundai i30 á þeim tíma sem Emilie hvarf. Blaðamenn BT ráku slóð bílsins til Slóvakíu og segjast hafa séð skjöl og myndir til sönnunar þess að hinn ákærði í máli Filippu hafi átt bílinn.

Bíllinn varð fyrir allsherjartjóni árið 2021 og var seldur af tryggingafélagi til bílaendurvinnslu. Þaðan var bíllinn áframseldur til Slóvakíu, þar sem hann var lagfærður og seldur slóvakísku fjölskyldunni sem á hann í dag.

Fjölskyldan hefur lagt fram gamalt skráningargjald af bílnum sem sönnun þess að 32 ára maðurinn hafi átt hann áður, en rannsóknarteymi dönsku lögreglunnar flaug til Slóvakíu og leita nú vísbendinga og ummerkja um Emilie í bílnum, í samstarfi við lögreglu þar í landi og Interpol. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert