Síðasta flugið frá Súdan í kvöld

Myndin er af flugvél egypska hersins sem flutt hefur almenna …
Myndin er af flugvél egypska hersins sem flutt hefur almenna borgara frá Súdan á síðustu dögum. AFP

Þýsk stjórnvöld ráðgera að fljúga sitt síðasta rýmingarflug frá Súdan í kvöld. Harðir bardagar hafa geisað í Kartúm, höfuðborg Súdan, frá 15. apríl. 

„Síðasta rýmingarflugið frá Súdan til Jórdaníu verður í kvöld,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Þýskalands. Þjóðverjar hyggja ekki á fleiri rýmingarflug í bráð.

Ríki um heim allan hafa unnið að því að koma ríkisborgurum sínum, sem staddir voru í Súdan þegar átökin brutust út, í öruggt skjól á síðustu dögum. 

Átökin brutust út milli tveggja hershöfðingja, annars vegar Abdel Fattah al-Burhan og Mohamed Hamdan Dagalo. Al-Burhan stýrir súdanska hernum en Dagalo uppreisnarher RSF. 

Formlegt vopnahlé hófst í morgun og á að vara í 72 klukkustundir. AFP-fréttastofan greinir þó frá því að ekki sé allt með kyrrum kjörum í Kartúm og að enn heyrist hljóð í skotvopnum á götum úti. 

Einna helst hefur verið flogið með almenna borgara til Djíbútí, Jórdaníu og Kýpur. Þá hafa borgarar einnig flúið landleiðina til vesturs og komist með skipum yfir Rauðahafið til Egyptalands og Eþíópíu. 

Fjöldi hefur flúið landleiðina að Rauðahafinu og farið þaðan yfir …
Fjöldi hefur flúið landleiðina að Rauðahafinu og farið þaðan yfir með skipum til Egyptalands og Eþíópíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert