Engum varð meint af þegar sænsk rannsóknareldflaug skall til jarðar skammt frá Lille Rostavatn í Målselv í Troms og Finnmark-fylki í Noregi í gærmorgun. Var flaugin á vegum Esrange Space Center í Kiruna í nágrannalandinu og flaug fimmtán kílómetra inn á norskt landsvæði eftir að henni var skotið upp.
„Svona lagað getur gerst,“ segir Frode Skuggedal, bæjarstjóri í Målselv, við norska ríkisútvarpið NRK, rósemin uppmáluð. Átti flaugin, sem notuð er til að rannsaka áhrif þyngdarleysis, að lenda 40 kílómetra frá þeim stað sem hún lenti á – og að sjálfsögðu innan landamæra Svíþjóðar – en eitthvað fór þar úrskeiðis eftir að flaugin hafði náð þeirri 250 kílómetra hæð sem ætlunin var til að framkvæma tilraunina.
Í fréttatilkynningu frá Esrange Space Center segir að flaugin hafi farið út af þeirri braut sem henni hafi verið ákveðin, leitað í vestur og farið lengra en ætlunin var. Segir Philip Ohlsson, upplýsingafulltrúi miðstöðvarinnar, að rannsókn standi nú yfir á því hvað úrskeiðis hafi farið við skotið.
Skuggedal bæjarstjóri kveður talsmenn geimferðastöðvarinnar sænsku hafa haft samband í gærmorgun eftir að ljóst var hvar flaugin endaði för sína. „Þeir greindu frá því sem gerst hafði og báðu um lendingarleyfi fyrir þyrlu til að sækja flaugina. Við höfum fullan skilning á því,“ segir Skuggedal sem þó er ekki kunnugt um hvort búið sé að sækja flaugina enn sem komið er.