Áttu „langt og innihaldsríkt samtal“

Xi Jinping og Volodímír Selenskí áttu símtal fyrr í dag …
Xi Jinping og Volodímír Selenskí áttu símtal fyrr í dag sem nam tæpa klukkustund. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Xi Jingping, forseti Kína, töluðu saman símleiðis fyrr í dag, en þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogarnir tala saman frá upphafi innrásar Rússlands. 

Selenskí átti frumkvæðið að símtalinu að sögn kínverskra stjórnvalda.  

„Ég átti í löngu og innihaldsríku símtali við Xi Jingpin forseta Kína,“ sagði Selenskí á Twitter. „Ég trúi því að þetta símtal, sem og skipan á úkraínskum sendiherra í Kína, muni vera öflug hvatning til þess að þróa tvíhliða samskipti okkar.“

Talsmaður Úkraínuforseta segir að símtalið hafi staðið yfir í nærri því klukkutíma.

Kína í liði með friði

Kínverska ríkissjónvarpið (CCTV) greindi frá því að Xi hefði sagt Selenskí að viðræður og samningaumleitan væri eina leiðin til þess að stöðva stríðið.

„Í umræðunni um Úkraínustríðið hefur Kína alltaf verið á hlið friðar og afstaða landsins er að hvetja til friðarviðræðna,“ hefur CCTV á eftir Xi en samkvæmt frétt stöðvarinnar á Xi einnig að hafa sagt að Kína myndi „hvorki horfa á eldinn frá hinni hliðinni, né bæta á hann eldsneyti, og hvað þá misnota sér átökin til eigin gróða“.

„Hvað varðar kjarnorkumálefni ættu allir hlutaðeigandi aðilar að halda ró sinni og festu og einbeita sér að framtíðinni og örlögum sínum og alls mannkyns, og stjórna kreppunni í sameiningu,“ sagði Xi en kínversk stjórnvöld hafa sagt að landið sé hlutlaust hvað varðar átökin. Þau hafa hins vegar ekki fordæmt innrás Rússa í Úkraínu.

Áætlun Kínverja um að stöðva átökin

Selenskí hefur margoft sagst vera opinn fyrir viðræðum með Xi. Síðastliðinn febrúar kynnti Kína 12 punkta áætlun þar sem kallað var eftir „pólitísku uppgjöri“ vegna átakanna í Úkraínu. Þar var Kína lýst sem hlutlausum aðila og báðir aðilar hvattir til að hefja friðarviðræður.

Fyrsta atriði áætlunarinnar var þess efnis að „viðhalda þurfi fullveldi, sjálfstæði og landhelgi allra landa að sanni“ en Kína hefur staðfastlega neitað að skýra nánar hvernig það tengist Úkraínustríðinu.

Sumir skýrendur á Vesturlöndum hafa bent á að sú staðreynd að Xi hafi hitt Pútín í eigin persónu en ekki einu sinni hringt í Selenskí sýni að Kínverjar séu ekki eins hlutlausir og þeir segist.

Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti og Xi Jinping, forseti Kína.
Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti og Xi Jinping, forseti Kína. AFP/Pavel Byrkin

Rússar hneykslast yfir símtalinu

Yfirvöld í Rússlandi hafa ásakað Úkraínumenn um að grafa undan friðarviðræðum með símtalinu á milli Selenskís og Xi. Stjórnvöld í Rússlandi hafa bent á að Kínverjar væru tilbúnir til að beita sér fyrir því að koma á samningaferli.

„Úkraínsk stjórnvöld og þeirra vestrænu yfirboðaðar hafa þegar sýnt getu sína til þess að klúðra tilraunum til friðar,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Við sjáum víðtæka samstöðu í nálgun okkar og í punktunum í áætlun [Kínverja],“ segir í yfirlýsingunni en þar eru Úkraínumenn einnig sakaðir um að hafa hafnað öllu skynsamlegu frumkvæði sem miði að „pólitísku og diplómatísku uppgjöri“. Úkraínumenn hafa lýst því yfir að þeir muni ekki semja meðan Vladimír Pútín sé Rússlandsforseti og að friður komi aðeins til greina eftir að Rússar dragi herlið sitt til baka.

Sendinefnd til Úkraínu og sendiherra til Kína

Stjórnvöld í Kína hafa ákveðið að skipa í sendinefnd sem mun fara til Úkraínu með það að markmiði að finna sátt um átökin.

„Kínverjar munu senda sérstakan fulltrúa kínverskra stjórnvalda í Evrasíu í heimsókn til Úkraínu og annarra landa til þess að eiga í ítarlegum samskiptum við alla aðila til þess að leita sátta um Úkraínustríðið,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Kína.

Í kjölfar símtalsins valdi Selenskí nýjan sendiherra Úkraínu til Kína en hann heitir Pavel Rjabikín. Úkraína hefur ekki haft sendiherra í landinu frá árinu 2021.

Frönsk stjórnvöld hafa tekið fregnunum af símtalinu fagnandi enda gerði Emmanuel Macron Frakklandsforseti sér sérstaka ferð til Kína í byrjun mánaðarins til þess að fá Kínverja til að þrýsta á Rússa um að hætta ófriðnum, að sögn talsmanna Frakklandsforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert