Danska lögreglan kallaði til blaðamannafundar í dag vegna rannsóknar hennar á hinum ákærða í máli 13 ára gömlu Filippu. Á fundinum tilkynnti lögregla að maðurinn hefði einnig verið ákærður fyrir morðið á hinni 16 ára Emilie Meng, en mál hennar hefur verið óupplýst síðan árið 2016.
Maðurinn er ákærður fyrir nauðgun og frelsissviptingu gagnvart Filippu, en stúlkan hvarf við blaðaútburð í bænum Kirkerup. Hún fannst á lífi á heimili mannsins, sem er 32 ára, á heimili í bænum Korsör og var hann handtekinn á staðnum.
Emilie Meng sást síðast á lífi við lestarstöð í heimabæ sínum í Korsör. Hún fannst látin fjórum mánuðum síðar í mýri í bænum Borup.
Lögregla fékk ábendingar um silfurlitaða Hyundai i30 bifreið fyrir utan lestarstöðina í Korsör á þeim tíma sem Emilie hvarf og lýstu eftir því að ná tali af bílstjóranum. Maðurinn sem um ræðir keyrði slíkan bíl á þeim tíma sem Emilie hvarf, en bíllinn hefur síðan verið seldur til Slóvakíu.
Danska lögreglan hefur haft bílinn til rannsóknar sem sönnunargagn í máli Emilie, en lögreglan vill hvorki tjá sig um hvaða sönnunargögn hafa leitt til þess að maðurinn var ákærður fyrir morðið á Emilie, né um sakaferil mannsins.
„Við þurfum að geta unnið með þessi sönnunargögn án þess að greina frá þeim strax.“
Að sögn lögreglustjórans, Kim Kliver, er maðurinn ekki aðeins ákærður máli Filippu og frelsissviptingu og morðið á 17 ára Emilie, heldur einnig fyrir líkamsárás með hníf, tilraun til frelsissviptingar og tilraun til nauðgunar á ungri stúlku í Sorø í fyrra.
Að sögn TV2 er um að ræða ungan framhaldsskólanema, en hún veitti mikla mótspyrnu og slapp naumlega frá árásarmanninum.
Maðurinn neitar allri sök í málunum samkvæmt lögfræðingi hans, Karina Skou, í samtali við TV2.