Rússar eru með njósnastöðvar í Kaupmannahöfn, Ósló og Stokkhólmi, sem þeir nota til umfangsmikilla njósna gegn norrænum samfélögum, samkvæmt heimildarþættinum „Skuggastríðið“. Þátturinn birti nöfn 38 meintra rússneskra njósnara og andlitsmyndir af sumum.
Annar þáttur heimildaþáttaraðarinnar, sem er framleiddur af norrænum ríkisstöðvum, var frumsýndur í gær en fyrsti þátturinn vakti mikla athygli í síðustu viku, vegna uppljóstrunar norrænna blaðamanna á meintum njósnum Rússa á norðurslóðum. Þar voru rússnesk stjórnvöld sökuð um að skipuleggja skemmdarverk á orkuinnviðum og ljósleiðurum í Norðursjó, komi til átaka á milli Rússa og Vesturveldanna. Danska ríkisútvarpið greindi einnig frá málinu á vef sínum.
Norrænar leyniþjónustur áætla að á milli þriðjungur og helmingur starfsmanna rússneskra sendiráða á Norðurlöndum séu sendir frá rússnesku leyniþjónustunni, en fjöldi rússneskra njósnara hefur verið að mestu óbreyttur síðastliðin ár, segir í mati frá leyniþjónustunum.
Rússneskir njósnarar á Norðurlöndum starfa í leyni, hafa aðgang að leynilegum upplýsingum, kortleggja veikleika í vörnum Norðurlandanna og stela upplýsingum um leiðandi tækni og þekkingu til að geta veitt Rússlandi forskot samkvæmt Inger Haugland yfirmanni norsku gagnnjósnadeildarinnar, PST. Inger segir Rússa margoft hafa gerst seka um að hlera samtöl til að safna upplýsingum.
Anders Henriksen, yfirmaður gagnanjósnadeildarinnar í Danmörku PET, segir ógnina sem stafi af rússneskum njósnum enn raunverulega, þrátt fyrir að 15 njósnurum hafi þegar verið vísað úr landi. Rússar væru líklegir til að haga njósnastarfseminni með öðrum hætti og koma leyniþjónustumönnum fyrir annars staðar en í sendiráðinu.
Danmörk vísaði í fyrra 15 rússneskum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar úr landi á þeirri forsendu að þeir væru leyniþjónustustarfsmenn, og Noregur gerði slíkt hið sama stuttu fyrir frumsýningu heimildarþáttanna.
Svíþjóð vísaði fimm starfsmönnum rússneska sendiráðsins þar í landi á sömu forsendu og Danmörk og Noregur. Ekki er vitað hvort þeir starfsmenn hafi verið í hópi þeirra sem voru uppljóstraðir í þætti Skuggastríðsins í gær, en 13 þeirra sem voru nafngreindir sem njósnarar í þættinum, starfa enn í sendiráðinu að svo stöddu.