Fyrrverandi stjórnmálamaður í Súdan, sem er sakaður um stríðsglæpi er flúinn úr fangelsi í Kartúm ásamt öðrum fyrrverandi embættismönnum.
Fréttir bárust af flótta mannanna í þessari viku, en vopnahlé stendur nú yfir í átökum súdanska hersins og uppreisnarhersins RSF.
Meðal embættismannana sem brutust út úr fangelsinu Kober í höfuðborginni Kartúm, eru Ahmed Haroun, fyrrverandi ráðherra og Omar al-Bashir, fyrrverandi forseti Súdan.
Haorun á yfir höfði sér ákærur frá Alþjóðaglæpadómstólnum (ICC) vegna stríðsglæpa í borgarastríðum í Darfur-ríki og Kordofan. Haroun á yfir höfði sér ákæru fyrir 20 glæpi gegn mannkyni og 22 stríðsglæpi, meðal annars ákærur fyrir morð, nauðganir, ofsóknir og pyntingar. Hann neitar allri sök.
Fyrrverandi forsetinn al-Bashir á einnig yfir höfði sér ákærur hjá ICC vegna stríðsglæpa, en sat þegar inni eftir að hafa verið dæmdur fyrir spillingu.
Haroun sagði fyrrverandi embættismennina, hafa tekið ákvörðun um að flýja vegna skorts á öryggi, vatni og fæðu sem hann sagði hafa dregið marga fanga til dauða. Hann segir fangaverðir og hersveitir hafi aðstoðað hópinn við flóttann.
Innanríkisráðuneyti Súdans hefur sakað hersveitir RSF um að hafa brotist inn í fimm fangelsi undanfarna daga og frelsað fanga.
RSF hefur vísað ásökunum á bug og fullyrt þess í stað að herinn hafi „rýmt“ fangelsin með valdi sem hluti af áætlun um að koma al-Bashir aftur til valda.
Talsmaður hersins neitar allri þátttöku og segir herinn vinna í samráði við lögreglu að því að skila föngunum í fangelsi á ný.