Norðmönnum vísað úr landi

Norska sendiráðið í Moskvu.
Norska sendiráðið í Moskvu. AFP

Rússland hefur vísað tíu norskum sendierindrekum úr landinu, meðal annars sendiherra landsins. Þetta gerist í kjölfar þess að Noregur vísar starfsmönnum í rússneska sendiráðinu úr landi. Frá þessu greinir norska ríkisútvarpið NRK.

NRK hefur eftir Robert Kvile, sendiherra Noregs í Rússlandi, að hann hafi verið kallaður á fund rússneska utanríkisráðuneytisins í morgun. Þar fékk hann að vita að 10 sendierindrekar Noregs í landinu væru ekki lengur velkomnir í Rússlandi. Kvile verður þó eftir í sendiráðinu.

„Það kæmi verulega á óvart ef þeir brygðust við með öðrum hætti,“ segir Kvile um rússnesk yfirvöld og bætir við að fundurinn hafi verið í jákvæðum tóni.

Bæði rússneska og norska utanríkisráðuneytið segja að um tíu starfsmenn í norska sendiráðinu sé að ræða. Nöfn starfsmannanna hafa þó ekki verið gefin upp.

Meðal þessara tíu eru starfsmenn sem rússnesk yfirvöld nefna og kalla skilaboðin sem sendiherranum bárust á miðvikudaginn „sterk mótmæli“.

Segir Rússa vera að hefna sín

„Rússnesk yfirvöld fullyrða að þetta séu viðbrögð við ákvörðun Norðmanna um að lýsa 15 starfsmenn í rússneska sendiráðinu í Ósló óvelkomna í Noregi,“ segir Ragnhild Simenstad, talskona norska utanríkisráðuneytisins. „Við lítum á ákvörðun Rússa sem hefnd. Allir okkar sendierindrekar í Rússlandi vinna venjuleg diplómatísk störf. Rússnesk yfirvöld vita þetta vel.“

Simenstad bendir á að 15 starfsmenn rússneska sendiráðsins í Ósló hafi verið sendir úr landi fyrr í mánuðinum þar sem norska utanríkisráðuneytið taldi að þeir stæðu að njósnaaðgerðum í landinu.

Í gær var fimm starfsmönnum rússneska sendiráðsins í Stokkhólmi vísað úr landi vegna þess að þeir urðu uppvísir að starf­semi sem sænsk stjórn­völd telja ekki geta sam­ræmst störf­um þeirra sem sendier­ind­rek­ar Rúss­lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert