„Þetta er ekki eðlilegt“

Gestir Feria de Abril-nautabanahátíðarinnar í Sevilla veifa blævængjum í miskunnarlausum …
Gestir Feria de Abril-nautabanahátíðarinnar í Sevilla veifa blævængjum í miskunnarlausum hita sem hvílt hefur yfir Spáni frá því á mánudaginn. AFP

Hitastig á Spáni hefur aldrei mælst hærra í aprílmánuði en í dag, 38,8 gráður, ef marka má fregnir spænsku veðurstofunnar. Náðist þetta nýja met á flugvellinum í Cordoba í suðurhluta landsins upp úr klukkan 15 í dag að spænskum tíma.

Hitabylgja hefur farið um Spán síðustu daga og hefur hiti mælst um tíu til fimmtán gráðum meiri en almennt er á þessum tíma árs. Er þar á ferð heitur loftmassi frá Afríku auk hægviðris sem gerir það að verkum að heita loftið færist hægt úr stað.

„Þetta er ekki eðlilegt. Hitinn er algjörlega stjórnlaus þetta árið,“ segir Cayetano Torres, talsmaður spænsku veðurstofunnar, við breska ríkisútvarpið BBC. Undir þetta tekur Maximiliano Herrera, loftslagsfræðingur sem heldur úti Twitter-síðu um hæstu mældu hitatölur.

Breyta stundaskrám skóla

„Svona lagað hefur aldrei sést í apríl áður. Sums staðar er hitinn heilum fimm gráðum hærri en áður hefur sést, slíkt er ákaflega sjaldgæft og hefur ekki gerst nema örfáum sinnum á veðurstöðvum heimsins,“ segir hann.

Skólar hafa fengið leyfi til að breyta stundaskrám svo kennsla standi ekki yfir á meðan hitinn er hve svæsnastur. Í höfuðborginni Madríd hefur ferðum neðanjarðarlesta verið fjölgað svo farþegar sleppi við langan biðtíma á sjóðheitum brautarstöðvum auk þess sem sundlaugar munu opna einum mánuði fyrr en ella fyrir sumarið.

Kona fær sér svalandi vatnssopa úr brunni í Cordoba í …
Kona fær sér svalandi vatnssopa úr brunni í Cordoba í dag þar sem hitinn mældist 38,8 gráður á flugvellinum. AFP/Jorge Guerrero

Cristina Linares, vísindamaður við Carlos III-heilsufarsstofnunina, varaði sérstaklega við áhrifum hitans á þá sem hve höllustum fæti standa fjárhagslega. „Fátækt er helsta skýringin þegar að því kemur að útskýra hvers vegna fleiri láta lífið þegar hitastigið fer upp fyrir öll mörk. Tekjur eru afgerandi þáttur í áhrifum hitastigs á fjölda þeirra sem deyja frá degi til dags,“ segir Linares.

„Við vitum að árið 2022 var næstheitasta árið í Evrópu frá upphafi mælinga og heitasta sumar frá upphafi þeirra,“ bendir dr. Samantha Burgess á, hún starfar hjá Kóperníkus-loftslagsbreytingastofnuninni. „Hitinn í Evrópu eykst á tvöföldum hraða miðað við meðaltal heimsins og við vitum að þegar slíkt ástand er fyrir hendi aukast líkurnar á veðuröfgum, þar á meðal hitabylgjum,“ segir doktorinn.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert