Barinn með kylfum og hnúum

Fyrsta frétt af málinu í staðarblaðinu greindi frá því að …
Fyrsta frétt af málinu í staðarblaðinu greindi frá því að tveir menn hefðu fengið á sig kæru um nóttina fyrir ofbeldi gegn lögreglu. Síðar kom myndskeið úr öryggismyndavél bensínstöðvar í Kongsberg fram. Skjáskot/Öryggismyndavél Esso de Luca

Lögreglumanni í suðausturumdæminu í Noregi hefur verið vikið frá störfum og hann ákærður fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi eftir atvik sem upp kom þegar í brýnu sló milli lögreglu og vinahóps sem var á leið heim úr afmæli aðfaranótt sunnudagsins 30. október í Kongsberg.

Það voru tveir 26 ára gamlir menn, Kristian Pablo Teigen og Kevin Simensen, sem komu þá ásamt fleirum á bensínstöð þar í bænum, þar sem þeir höfðu mælt sér mót við einhvern sem hugðist aka þeim heim.

Áður hafði dyravörður á skemmtistaðnum Privaten beðið þá að yfirgefa staðinn og þegar Simensen og þeir félagar koma út af bensínstöðinni er dyravörðurinn kominn þangað og ræðir við fjóra lögregluþjóna sem þar eru staddir sem svo gefa sig á tal við Siemensen og fljótlega kemur til snarpra átaka sem öryggismyndavél á bensínstöðinni fangaði. Atburðarásina alla má sjá á myndskeiði úr vélinni sem Dagbladet birti á vef sínum í gær.

Frétt Dagbladet

Sýnir myndskeiðið glöggt hvernig annar tveggja lögreglumanna lemur Siemensen ítrekað með krepptum hnefa. „Þegar hann var búinn að kýla mig sextán sinnum dregur hann upp kylfuna og byrjar að lemja mig með henni,“ segir Siemensen í samtali við Dagbladet, „ég sagði þeim fjórum eða fimm sinnum að ég gæti ekki andað,“ heldur hann áfram.

Siemensen hlaut töluverða áverka á höfði og andliti eftir átökin …
Siemensen hlaut töluverða áverka á höfði og andliti eftir átökin við lögregluþjónana við bensínstöðina. Lögreglumaður hefur nú verið ákærður og annar er til rannsóknar fyrir að taka síma með valdi af vitni og eyða úr honum myndskeiði. Ljósmynd/Úr einkasafni

Er þarna var komið sögu blandaði Teigen sér í átökin og benti lögreglu á að Siemensen gæti ekki andað. Lögreglumennirnir tveir ganga þá á móti honum og annar þeirra lemur hann með kylfu en virðist svo róast þegar Teigen fer niður á hnén og gefur til kynna að hann veiti ekki mótspyrnu. Fékk hann eitt högg í læri sem skildi eftir sig sýnilegan áverka og kveðst hafa verið marinn og blár í marga daga á eftir.

Marius Stormo, einn úr hópnum, tók átökin upp á síma sinn og sést á upptökunni hvernig lögregluþjónar taka símann af honum með valdi. Eyddu þeir svo myndskeiðinu að sögn Stormos sem er vitni í málinu.

Frétt um að tveir hefðu verið kærðir

Daginn eftir birti staðarblaðið Laagendalsposten frétt um að tveir menn hefðu verið kærðir um nóttina fyrir að beita lögregluna ofbeldi. „Hefði ekki þessi öryggismyndavél verið þarna hefði ég ábyggilega verið dæmdur fyrir ofbeldi í garð lögreglunnar,“ segir Siemensen, „ég fór í yfirheyrslu hjá rannsóknardeild í innri málefnum lögreglunnar [n. Spesialenheten for politisaker] sem þá hafði ekki séð myndskeiðið og það var greinilegt að þeir trúðu ekki orði af mínum framburði,“ segir hann.

Áverkinn á læri Teigens eftir lögreglukylfuna. Hann hörfaði undan höggum …
Áverkinn á læri Teigens eftir lögreglukylfuna. Hann hörfaði undan höggum lögreglu og fór niður á hnén til að sýna að hann veitti ekki mótspyrnu. Þetta má sjá í myndskeiðinu sem Dagbladet birtir. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ole Bredrup Sæverud, lögreglustjóri í suðausturumdæminu, staðfestir við norska ríkisútvarpið NRK að lögregluþjóninum sem hafði sig mest í frammi í átökunum við félagahópinn hafi verið vikið frá störfum tafarlaust auk þess sem áðurnefnd rannsóknardeild, sem einnig fer með ákæruvald í innri málefnum, hafi gefið út ákæru á hendur honum.

Að öðru leyti vill hann ekki tjá sig um málið en NRK er kunnugt um að lögreglumaðurinn sem eyddi myndskeiðinu úr síma Stormos er einnig til skoðunar hjá rannsóknardeildinni.

„Höfum skilning á því að þetta lítur illa út“

NRK hefur náð tali af lögreglumanninum sem ákærður er og hann kveðst viðurkenna að aðfarirnar á myndskeiði öryggismyndavélarinnar líti mjög illa út. Hann vill ekki tjá sig beint við fjölmiðilinn en gerir það gegnum lögmann sinn, Gry Schrøder Berger, sem kveður skjólstæðing sinn eiga sólarlitla daga.

„Ég vil ekki vera einn á ferð eða staddur utandyra …
„Ég vil ekki vera einn á ferð eða staddur utandyra eftir myrkur. Ég vil helst ekki vera einn á ferð yfir höfuð,“ segir Siemensen eftir atburðina í lok október. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Myndskeiðið sem hefur verið birt sýnir ekki alla atburðarásina,“ segir Berger og er spurð hvort hún telji ákæruna ekki eiga rétt á sér.

„Við höfum skilning á því að þetta lítur illa út. Málið gengur nú til dómstóla þar sem valdbeitingin verður metin með tilliti til atburðarásarinnar,“ svarar lögmaðurinn og kýs að tjá sig ekki frekar.

Ónotakennd við að sjá endurskinsvesti

„Í grundvallaratriðum skil ég að myndskeið á borð við þetta, sem birt eru í fjölmiðlum, hafi áhrif á traust fólks á lögreglunni. Mál sem þetta eru erfið fyrir alla hlutaðeigandi, líka fyrir lögregluna,“ segir Ørjan Hjortland, varaformaður Landssambands lögreglumanna í Noregi.

Hjortland hefur séð myndskeiðið en vill ekki taka afstöðu til sektar eða sakleysis lögreglumannsins ákærða. „Það er mikilvægt að lögregla misfari ekki með það vald sem henni er fengið,“ segir varaformaðurinn.

„Ég fæ yfir mig ónotakennd núna bara þegar ég sé endurskinsvesti eða blikkandi ljós,“ segir Teigen, „ég hef ekki talið nauðsynlegt að leita til sálfræðings en ég er farinn að finna fyrir því að þetta háir mér dags daglega.“

Siemensen hefur svipaða sögu að segja og kveðst finna til kvíða þegar hann sér fólk í dökkum fatnaði með endurskinsmynstri, heyrir hringla í lyklakippu eða sér blá blikkandi ljós og heyrir sírenuvæl. „Ég vil ekki vera einn á ferð eða staddur utandyra eftir myrkur. Ég vil helst ekki vera einn á ferð yfir höfuð,“ segir hann eftir reynsluna í október.

NRK

Laagendalsposten (frétt daginn eftir – tveir menn kærðir fyrir ofbeldi gegn lögreglu)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert