Bóndi argur yfir golfkúlum

Christian Sønstebø birtir þetta myndskeið á Facebook-síðu sinni þar sem …
Christian Sønstebø birtir þetta myndskeið á Facebook-síðu sinni þar sem hann ræðir baráttu sína við golfklúbbinn Toppgolf en í baksýn má sjá kúlurnar liggja sem hráviði. Skjáskot/Facebook

„Þeir taka peninga, gróða og rekstur fram yfir náttúruna,“ segir Christian Sønstebø, bóndi í Bekkestua í Bærum, nágrannasveitarfélagi Óslóar í Noregi, í samtali við ríkisútvarpið þarlenda, NRK, og vísar til golfklúbbsins Toppgolf sem leigt hefur af honum svæði undir golfiðkun um tveggja áratuga skeið við Nordhaug þar skammt frá.

Sá böggull fylgi hins vegar skammrifi að tugir þúsunda golfkúlna liggi eins og hráviði á víð og dreif um svæðið umhverfis sjálfan golfvöllinn, kúlur sem slegnar hafi verið út af vellinum og týnist úti í móa. Safnast þegar saman kemur.

Brotna niður í náttúrunni

„Þetta svæði hérna segir leigjandinn til dæmis að hafi verið hreinsað, en hér eru enn þá um tuttugu golfkúlur í runnagróðrinum,“ bendir Sønstebø fréttamönnum NRK á og talar um þau náttúruspjöll sem það hafi í för með sér þegar kúlurnar brotni hægt og bítandi niður í náttúrunni og örplastið inni í þeim fari í jarðveginn.

„Fjöldi golfkúlna hefur farið út í Øverlands-ána sem við sjáum hérna niður frá,“ segir bóndinn en náttúruverndarsamtökin Naturvernforbundet, sem látið hafa málið til sín taka, hafa áætlað að um 150.000 golfkúlur hafi verið slegnar út í náttúruna umhverfis völlinn, liggi ýmist þar enn eða hafi eyðst upp og plastið úr þeim farið í jarðveginn og sumt í meltingarfæri fugla og annarra dýra.

Eins hafa kúlur með tímanum sokkið ofan í jörðina, niður á tuga sentimetra dýpi, og sitja þar enn eða hafa skilað sér út í ána gegnum jarðveginn. Talsmenn Toppgolfs hafa að sögn leigusalans ítrekað lofað bót og betrun þegar hvort tveggja hann sjálfur og talsmenn Bærum hafi farið þess á leit að þeir geri bragarbót, en nú segir hann nóg komið, hann vill rifta leigusamningnum og losna við golfiðkunina af svæðinu.

Þrif fyrir 50 milljónir

Í því skyni hefur hann stefnt klúbbnum fyrir Héraðsdóm Ringerike, Asker og Bærum og gert þá kröfu að leigjendurnir pakki saman og fari, auk þess að þrífa eftir sig sóðaskapinn, en ráðgjafarfyrirtækið Asplan Viak metur kostnað við þrifin einar fjórar milljónir norskra króna, jafnvirði rúmlega 50 milljóna íslenskra króna, enda er Toppgolf einn stærsti golfklúbbur Noregs.

Karl Jakob Hornseth, stjórnarformaður klúbbsins, kveðst sem steini lostinn yfir aðgerðum bónda í málinu. „Við skiljum þetta engan veginn, við sjáum bara engan grundvöll fyrir þessu,“ segir hann og bætir því við að klúbburinn haldi uppi stöðugri golfkúlutínslu auk þess að hafa fjárfest í heljarmiklu öryggisneti sem nái upp í 25 metra hæð.

„Við tökum þessum málum af mikilli alvöru. Nú munum við þrífa upp allt sem mögulegt er að þrífa og allt sem við komum auga á,“ segir Hornseth sem telur tölfræðina yfir kúlur í náttúrunni stórlega ýkta. Segir hann enn fremur að margar golfkúlnanna séu vafalaust komnar frá golfklúbbnum Haga sem er þar skammt frá.

Enn er ekki ljóst hvenær héraðsdómur tekur málið fyrir.

NRK

E24 (umfjöllun frá 2021 um stóraukna golfiðkun, meðal annars í Bærum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert