Konan sem bar sakir á Emmett Till látin

Leiði Emmett Till.
Leiði Emmett Till. AFP

Carolyn Bryant Donham er látin, 88 ára að aldri. Donham bar sakir á hendur hinum fjórtán ára gamla Emmett Till árið 1955, en ásakanirnar leiddu til þess að Till var myrtur. Donham var hvít en Till svartur og var mikið fjallað um lát hans. 

Morðið á Till var banda­rísku þjóðinni reiðarslag og leiddi til mik­ill­ar umræðu um borg­ara­rétt­indi svarts fólks í Banda­ríkj­un­um. Hrylli­leg­ar ljós­mynd­ir af lemstruðu líki Till birt­ust í fjöl­miðlum um heim all­an og urðu að vissu leyti tákn­mynd kynþátta­for­dóma og of­beld­is í suður­ríkj­un­um. Þrem­ur mánuðum eft­ir morðið neitaði svo bar­áttu­kon­an Rosa Parks að gefa eft­ir sæti sitt í stræt­is­vagni í Mont­gomery, Ala­bama eins og frægt er orðið.

Viðurkenndi lygar í viðtali

Donham var 21 árs gömul þegar hún sakaði Till um að hafa blístrað til sín og látið daðurslega. 

Till var svo rif­inn fram úr rúmi sínu þar sem hann svaf um miðja nótt í ág­úst 1955, bar­inn heift­ar­lega og að lok­um skot­inn til bana. Líki hans var síðan fleygt í Talla­hatchie-ána í bæn­um Mo­ney, Mississippi. Till, sem var frá Chicago, hafði verið í heim­sókn hjá frænda sín­um í Mo­ney. Donham viður­kenndi í viðtali löngu síðar að hún hefði logið þessu upp á Till og að hann hefði ekki gert henni neitt.

Minna en mánuði eft­ir að lík Till fannst í ánni voru eig­inmaður Donham, Roy, og ann­ar maður að nafni J. W. Milam, sýknaðir af morðinu á Till af kviðdómi, þrátt fyr­ir að sjón­ar­vott­ar sem sáu til þeirra hafi borið vitni.

Stytta af Emmett Tiil á síðasta ári.
Stytta af Emmett Tiil á síðasta ári. AFP/Scott Olson

Mátti ekki ákæra aftur

Síðar lýstu Roy Bry­ant og Milam því í viðtali hvernig þeir höfðu myrt Till og fleygt líki hans í ána en sam­kvæmt fimmta ákvæði banda­rísku stjórn­ar­skrár­inn­ar mátti ekki ákæra þá að nýju fyr­ir sama glæp.

Mál Till var enduropnað árið 2018 vegna þess að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna bárust nýjar upplýsingar um málið. Allt þar til á síðasta ári reyndi saksóknari að sannfæra ákærudómstólinn um að rétta yfir Donham en hafði ekki erindi sem erfiði. 

Donham sætti aldrei gæsluvarðhaldi vegna málsins. Í júní 2022 fann leitarhópur skjöl í kjallara lögreglustöðvarinnar í Money. Í þeim var meðal annars handtökuheimild á hendur Bryant, Milam og Donham. 

Þó handtökuheimildin hafi verið gerð opinber á sínum tíma sagði þáverandi lögreglustjóri að hann hefði ekki viljað „trufla“ unga móður sem væri heima með tvö ung börn. 

Í sjálfsævisögu Donham, sem ekki hefur verið gefn út, skrifaði Donham að hún hefði ekki vitað hvaða afleiðingar þetta myndi hafa fyrir Till þegar hún bar upp ásakanirnar gegn honum.

Enginn axlaði ábyrgð á andláti Till

Donham lést í Westlake í Louisiana-ríki. Í tilkynningu frá Emmett Till & Mamie Till-Mobley-stofnuninni segir í tilkynningu að þau voni að hún hvíli í friði þrátt fyrir að hún hafi aldrei axlað ábyrgð sína á aðdraganda morðsins á Till. 

„Heimurinn varð vitni að ógeðinu í kynþáttafordómunum í morðinu á Emmett, raunverulegu afleiðingarnar af svona hatri. En heimurinn fær aldrei að sjá eftirsjá eða einhvern axla ábyrgð á dauða hans,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert