Lögreglumaður ákærður fyrir tilraun til manndráps

Ljósmynd/Colourbox

Hollenskur lögreglumaður var á dögunum ákærður fyrir tilraun til manndráps en honum er gefið að sök að hafa skotið á dráttarvél sem 16 ára drengur ók, á mótmælum bænda í júlí í fyrra. 

Átök urðu milli lögreglu og bænda í júlí í fyrra þegar spenna ríkti um fyrirhugaðar áætlanir stjórnvalda um að draga úr losun köfnunarefnis. Átti meðal annars að fækka búfé og jafnvel taka jarðir eignarnámi í einhverjum tilfellum. 

Atvikið átti sér stað þegar lögreglumenn við vegatálma í Heerenveen, norðurhluta Hollands, reyndu að stöðva dráttarvélina áður en hún keyrði fram hjá þeim. Lögreglumaðurinn hleypti af tveimur skotum, að minnsta kosti, áður en drengurinn stöðvaði dráttarvélina. Ekki var tilkynnt um nein slys á fólki en gat kom á hlið traktorsins. 

Málið verður tekið fyrir af sérstakri deild í héraðsdómi mið-Hollands sem fjallar um mál lögreglumanna sem beita valdi í störfum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert