Páfi heimsækir Orban

Frans páfi lenti í Ungverjalandi í morgun, en hann mun …
Frans páfi lenti í Ungverjalandi í morgun, en hann mun dvelja þar næstu þrjá daga. AFP

Formleg heimsókn Frans páfa til Ungverjalands hófst í dag. Ráðgert er að páfi verji þremur dögum í Búdapest.

Þetta er fyrsta formlega heimsókn páfans til landsins, en ólík gildi hans og forsætisráðherra landsins, Viktors Orban, eiga eflaust þátt í að ekki hefur orðið að heimsókninni fyrr.

Ungverjaland er að mestu kaþólskt land en talið er að staða Orbans gegn flóttafólki hafi haldið Frans páfa frá, en hann hefur sjálfur sýnt mikla samstöðu með fólki á flótta.  

Tilefni heimsóknar Frans páfa er stríðið í Úkraínu en Ungverjaland deilir landamærum með landinu sem sætir árásum rússneska hersins. Páfinn hefur hvatt til friðarviðræðna í Úkraínu síðan stríð hófst, en áætlað er að hann muni hitta flóttafólk frá landinu á laugardaginn. 

Öfugt við páfann hefur Orban ekki sýnt nágrannalandi sínu mikinn stuðning. Hann hefur neitað að senda hernaðaraðstoð og hefur hvorki beitt Rússland refsiaðgerðum né rofið samskipti við Vladimír Pútín, forseta Rússlands.

Fjölmiðlar hliðhollir Orban hafa áður gagnrýnt páfann fyrir að vera of jákvæður í garð flóttafólks og hinsegin fólks, en talið er að heimsóknin geti samt sem áður nýst Orban til að leggja áherslu á trú og fjölskyldugildi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert