Fóru burt með skartgripina á mótorhjólum

Viðbúnar við búðina í kjölfar ránsins árið 2021.
Viðbúnar við búðina í kjölfar ránsins árið 2021. AFP

Vopnaðir ræningjar gengu berserksgang um skartgripaverslunina Bulgari við Vendom-torgið í miðborg Parísar fyrr í dag. Ræningjarnir höfðu á brott með sér fjölda skartgripa og annarra verðmæta en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvert verðmæti gripanna er.

Ræningjarnir þrír komu á tveimur mótorhjólum sem þeir lögðu á gangstétt við verslunina um klukkan korter í tvö að staðartíma.

Enn er verið að leggja mat á skemmdirnar og þýfið sem ræningjarnir tóku með sér. 

Í myndskeiði sem hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum má sjá tvö stór svört mótorhjól lögð fyrir framan verslunina. Dökkklæddur maður með hjálm og byssu sést standa vörð um búðina. Seinna sjást þrír menn flýja vettvang á tveimur mótorhjólum.

Einungis tæp tvö ár eru liðin frá því að vopnað rán var framið í sömu skartgripaverslun. Tjónið var þá metið 10 milljónir evra, eða því sem nemur nú um 1,5 milljarði króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert