Heimila notkun þungunarrofslyfs í fyrsta sinn

Heilbrigðisráðuneyti hefur samþykkt að leyfa notkun þungunarrofslyfs í landinu.
Heilbrigðisráðuneyti hefur samþykkt að leyfa notkun þungunarrofslyfs í landinu. AFP

Þungunarrofslyf verður í fyrsta skipti fáanlegt í Japan seinna á þessu ári. Japanska heilbrigðisráðuneytið samþykkti nýverið að heimila notkun lyfsins. 

Þungunarrof er löglegt fram að 22 viku meðgöngu í Japan en yfirleitt er aðgerðin háð samþykki maka. Þar til nú hefur aðeins verið hægt að fara í aðgerð til að framkvæma þungunarrof. Lyfið er hægt að nota til að rjúfa þungun fram að níundu viku meðgöngu.

Heilbrigðisráðuneytið gaf út tilkynningu um að lyfið hefði verið samþykkt í gær. Lyfið sem var samþykkt er frá breska lyfjafyrirtækinu Linepharma. 

Lyfið, auk tíma hjá lækni til að fá það ávísað, mun kosta um 100 þúsund jen, eða um 100 þúsund krónur. Þungunarrof framkvæmt með skurðaðgerð kostar á bilinu 100 til 200 þúsund jen. 

Sjúkratryggingar í Japan ná ekki yfir þungunarrof. 

Aðgerðasinnar í Japan hafa barist fyrir bættu aðgengi að neyðartöflum til að hindra að þungun verði eftir samfarir. Þau lyf þarf læknir að ávísa og eru það einu lyfin í Japan sem kúnni þarf að taka fyrir framan lyfjafræðing í apóteki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert