Sjúkrahús í Bretlandi búa sig undir mikla manneklu næstu tvo daga er hjúkrunarfræðingar undirbúa verkfall.
Undanfarnar vikur hefur heilbrigðisstarfsfólk í landinu látið í sér kveða og boðað verkföll í von um bætt launakjör.
Fjöldi bókaðra læknistíma sem hefur þurft að fresta vegna verkfallsaðgerða nálgast bráðlega hálfa milljón.
SkyNews greinir frá.
Verkfall hjúkrunarfræðinga, sem eiga aðild að Royal College hjúkrunarfræðifélaginu (RCN), mun að öllu óbreyttu hefjast klukkan átta annað kvöld og vara út mánudaginn.
Hjúkrunarfræðingar skipa um fjórðung starfsfólks breska heilbrigðiskerfisins. Fara þeir nú fram á launahækkun sem nemur 5% ofan á verðbólguna sem mælist í landinu.
Formaður RCN segir laun hjúkrunarfræðinga ekki hafa fylgt almennri verðlagsþróun í landinu undanfarin ár. Þá sé ástandið einstaklega slæmt um þessar mundir þar sem kostnaður við að reka heimili hefur aukist gríðarlega hratt.