Lögreglan í Texas-ríki í Bandaríkjunum leitar manns sem grunaður er um að hafa skotið fimm manns frá Hondúras til bana í gærkvöldi, þar á meðal átta ára barn. Þrír voru fluttir alvarlega særðir á spítala.
Maður að nafni Francisco Oropeza liggur undir grun. Talið er að hann hafi verið að skjóta úr AR-15 hálfsjálfvirkum riffli í garði sínum þegar nágranni hans hafi beðið hann um að hætta þar sem hann var að reyna að svæfa barnið sitt.
Greg Capers, sýslumaður í Jacinto-sýslu norður af Houston, sagði að hinn grunaði hafi verið ölvaður. Hann hafi sagt við nágranna sína: „Ég geri það sem ég vil í mínum eigin garði.“
Oropeza hafi í kjölfarið farið inn í hús nágranna sinna þar sem tíu manns voru og skotið á fólkið sem þar var inni.
Lík fórnarlambanna lágu á dreif inni í húsinu, frá útidyrahurðinni inn í svefnherbergi. Þar fundust tvær konur látnar sem lágu ofan á tveimur börnum en þau lifðu af skotárásina.
„Ég tel að þær hafi verið að reyna að vernda börnin og að reyna að halda þeim á lífi,“ sagði Capers.
Yfir 170 fjöldamorð hafa verið í Bandaríkjunum á þessu ári.