Yfirvöld í Póllandi hafa tekið yfir menntaskólabyggingu í grennd við rússneska sendiráðið þar í landi, sem ætlað er börnum rússneskra diplómata. Rússneski sendiherrann segir yfirtökuna ólöglega.
Deilan um skólabygginguna, sem byggð var á áttunda áratug síðustu aldar, hefur staðið yfir í ár.
„Byggingin tilheyrir ráðhúsinu í Varsjá,“ sagði Lúkas Jasína, talsmaður pólska utanríkisráðuneytisins, og bætti við að úrskurður dómara lægi fyrir sem heimilaði yfirtökuna.
Rússnesk stjórnvöld líta málið öðrum augum.
„Við lítum á þetta sem fjandsamlegt athæfi af hálfu pólskra yfirvalda og skýrt brot á Vínarsáttmálanum frá árinu 1961,“ sagði í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Rússlands. Hótaði ráðuneytið „hörðum viðbrögðum“ vegna yfirtökunnar.
Sergei Andreyev, rússneski sendiherrann í Póllandi, sagði afskiptin ólöglegt inngrip, sér í lagi þar sem kennarar og starfsmenn byggju á skólalóðinni. Þá tók hann fram að skólinn myndi halda starfsemi sinni áfram í annarri byggingu í eigu sendiráðsins.
„Forgangsverkefni okkar er að tryggja öryggi og hagsmuni starfsmanna okkar og fjölskyldna þeirra.“
Í mars á síðasta ári, skömmu eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst, gaf utanríkisráðuneyti Póllands út yfirlýsingu þess efnis að pólskir dómstólar væru búnir að úrskurða að Rússar yrðu að skila byggingum aftur til Pólverja.