Bretar undirbúa nú síðasta flugið sem flytja á breska ríkisborgara frá Súdan. Þegar hafa 1.888 Bretar verið fluttir í 21 flugferð frá Súdan síðan á þriðjudag.
Harðir bardagar hafa geisað á milli Súdanshers og uppreisnarhersins RSF í höfuðborginni Kartúm síðan 15. apríl. Skriðdrekar fara um götur borgarinnar og hafa herirnir einnig beitt árásarþotum á borgina. Yfir 400 manns hafa týnt lífinu í átökunum og þúsundir slasast.
Sumir þeirra Breta sem verið er að flytja frá átakasvæðinu segja að bresk stjórnvöld hafi neytt þá til þess að skilja ættingja sína eftir, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar.
Konunglegi flugherinn í Bretlandi (RAF) byrjaði á þriðjudaginn að flytja fyrst þá sem eru með breskt vegabréf og náskylda ættingja sem búa í Bretlandi.
Eftir harða gagnrýni heima fyrir ákvað ríkisstjórnin í Bretlandi einnig að leyfa súdönskum læknum sem vinna í breska heilbrigðiskerfinu að fá far frá Afríkuríkinu.