Lizette Risgaard, formaður launþegasamtakanna Fagbevægelsens Hovedorganisation í Danmörku, hefur sagt af sér í kjölfar ásakana ungra manna innan samtakanna um að hún hafi farið yfir mörk þeirra. DR greinir frá.
Risgaard hefur sjálf sagt að ásakanirnar snúist um að hún hafi káfað á rassi manna og dansað of nálægt þeim.
Rannsókn á hendur Risgaard var tilkynnt á föstudaginn í kjölfar þess að Berlingske og Ekstra Bladet sögðu frá ásökunum mannanna deginum áður.
Risgaar tilkynnti afsögn sína á Facebook í morgun.
Hún skrifar í færslunni að hún vilji minna á að ekki komi alltaf fram öll smáatriði né pólitískar ástæður sem liggja að baki „þegar mál eins og þetta er sent í gegnum fjölmiðlamylluna“.
Greinandi DR segir sláandi að Risgaard gefi það til kynna að pólitískar ástæður séu að baki ásökunum, án þess að skýra það frekar.