Taldi dánarstundina runna upp

Helena H. Høie segir farir sínar ekki sléttar en fimm …
Helena H. Høie segir farir sínar ekki sléttar en fimm írskir úlfhundar réðust á hana og Theo, hundinn hennar, þegar þau voru að koma frá dýralækni í Askim. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Þetta hefur verið hrein martröð að standa í. Líkamlegu meiðslin eru eitt en andlega álagið hefur verið gríðarlegt,“ segir Helena H. Høie í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en hún þurfti að leggjast inn á sjúkrahús í tvo daga eftir að fimm írskir úlfhundar, sem eru með stærstu hundum, réðust á hana á miðvikudaginn fyrir hálfri annarri viku í Askim í Viken.

Var Høie að koma með hundinn sinn Theo frá dýralækninum þegar hún sá tvo árásarhundanna koma hlaupandi. Lagðist hún þá ofan á Theo til að verja dýrið en þá komu þrír úlfhundar til viðbótar að henni.

„Ég fann þá bíta samtímis. Mér var ómögulegt að standa á fætur með þennan þunga ofan á mér. Skelfingin náði tökum á mér og ég hugsaði með mér að nú væri ég að lifa það síðasta. Ég hafði aðallega áhyggjur af því hvernig færi fyrir Theo,“ segir hún frá.

Öskraði á hjálp

Høie segir þau Theo hafa verið á rólegri göngu þegar eigendur árásarhundanna misstu greinilega alla stjórn á þeim. „Þegar ég sá að þeir höfðu líka ráðist á annan eigandann öskraði ég á hjálp af fullum hálsi í von um að aðrir kæmu að,“ heldur hún áfram.

Varð henni að þeirri ósk sinni þar sem starfsfólk verslunarinnar Felleskjøpet hljóp á vettvang og tókst að ná stjórn á úlfhundunum. Var Høie í kjölfarið flutt á sjúkrahús með fjölda áverka auk þess sem sauma þurfti Theo saman og setja einn fóta hans í gifs.

Theo slapp með skrekkinn, nokkur saumaspor og einn fót í …
Theo slapp með skrekkinn, nokkur saumaspor og einn fót í gifsi en Høie lagðist ofan á hann til að verja hann ágangi árásarhundanna. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hefur Høie kært atvikið til lögreglu en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hundar í eigu sama fólks ráðast til atlögu. Fyrir tveimur árum viðraði Vetle Johansen hund sinn Lego, einnig í Askim, og segir frá því er nokkrir hundar sömu tegundar, írskir úlfhundar, réðust að þeim Lego.

„Ég var viss um að hundinum mínum yrði styttur aldur, þeir réðust allir á okkur samtímis. Ég lá á jörðinni með hundinn, mér fannst eins og árásin stæði yfir í klukkutína,“ segir Johansen frá og kveðst hafa fengið áfall en þeir Lego hlutu báðir bitsár.

Engar málalyktir

Kveður Johansen atvikið hafa komið upp í hugann er hann sá fréttir af árásinni á Høie nú, tveimur árum síðar. „Það fyrsta sem ég hugsaði var að ég vona að lögreglan geri eitthvað í málinu núna. Það urðu aldrei neinar málalyktir hjá mér,“ segir hann en úlfhundarnir fimm eru nú í vörslu lögreglu.

Vetle Johansen og Lego urðu fyrir árás hunda sama fólks …
Vetle Johansen og Lego urðu fyrir árás hunda sama fólks fyrir tveimur árum og er Johansen ekki sáttur við málalokin þar. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég hef hundana mína vanalega ekki lausa en þarna var nokkurra sekúndna andvaraleysi,“ segir annar eigenda hundanna fimm og játar um leið að hennar hundar hafi verið að verki þegar Johansen var bitinn á sínum tíma. Það hafi hins vegar verið aðrir hundar en þau nú eigi. „Því máli er lokið og ég hef gert upp reikninginn þar,“ segir hún enn fremur.

Báðir eigendurnir kveðast harma árásina á Høie af öllu hjarta. Sá hundanna, sem fyrstur hljóp að konunni, hafi verið nývaknaður eftir deyfingu en verið í búri í bifreið þeirra. Hann hafi stokkið út úr búrinu þegar það var opnað til að setja annan hund þar inn og komist svo út úr bifreiðinni. Hinir þrír hundarnir, sem einnig voru í búrinu, hafi svo hlaupið á eftir og allir fimm þá verið lausir.

Vilja fá að vita um örlög hundanna

„Okkur þykir þetta mjög miður og skiljum vel að atvikið hafi vakið ótta og uppnám. Við munum bæta allt tjón og miska og viljum mjög gjarnan komast í samband við þá sem bitin var,“ segja eigendurnir sem hafa langa reynslu af úlfhundum og hafa fengist við hundaræktun um árabil.

„Ég reikna með að lögreglan fylgi þessu máli þannig eftir að útilokað sé að nokkuð í líkingu gerist aftur. Þetta hefði getað verið banvænt,“ segir Høie. Lögreglan upplýsir að málið sé í rannsókn og enn eigi eftir að yfirheyra nokkur vitni.

Lego sveið undan áverkum árásarhundanna en komst til heilsu.
Lego sveið undan áverkum árásarhundanna en komst til heilsu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Vetle Johansen og faðir hans rifja upp að eldra málinu hafi aldrei lokið formlega, málsaðilar hafi hist á sáttafundi en engum hafi verið refsað fyrir atvikið. Alf Robin Gundersen Minothi, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í suðausturumdæminu, staðfestir við NRK að engin ákæra hafi verið gefin út á sínum tíma.

„Við viljum fá að vita sem fyrst hvað verður um hundana, sú óvissa hvílir þungt á okkur,“ segir sá hundaeigendanna sem haft hefur orð fyrir þeim.

NRK

NRKII (fyrsta frétt af árásinni)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert