Fyrsta rauðakrossþyrlan lenti í Súdan í dag með hjálpargögn en væringar hers landsins og uppreisnarhersins RSF fara nú inn í sína þriðju viku í höfuðborg landsins, Kartúm. Hafa á sjötta hundrað manns týnt lífi sínu í átökunum.
„Þarna er um að ræða átta tonn af hjálpargögnum, meðal annars skurðstofubúnað til aðstoðar sjúkrahúsum landsins og sjálfboðaliðum Rauða hálfmánans,“ segir í tilkynningu Alþjóða Rauða krossins.
Lík hafa legið á götum höfuðborgarinnar síðan átökin brutust út og segir Patrick Youssef, umdæmisstjóri Alþjóða Rauða krossins í Afríku, að sjálfboðaliðar á vegum samtakanna vinni nú að því að fjarlægja þau eftir því sem hægt sé.
Innan við fimmtungur sjúkrahúsa Kartúm er starfhæfur að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO en mörg húsanna hafa laskast í sprengjuárásum. Þyrlusendingin sem kom á vettvang í dag kemur frá Amman í Jórdaníu og lenti þyrlan í borginni Port Sudan í austurhluta landsins, á eina staðnum í landinu sem óhætt er að nota til slíkra flutninga að sögn Youssefs.
Greindi hann enn fremur frá því að gögnin sem þyrlan flutti dygðu til að koma 1.500 sjúklingum í stöðugt ástand auk þess sem vonast væri til að hægt væri að tryggja öryggi frekari sendinga til Kartúm og Darfúr.